20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

67. mál, veiting prestakalla

Flutningsm. (Guðm. Ólafsson) :

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa tillögu; það er svo augljóst að hverju hún stefnir. Tilgangur hennar er sá, að gjöra söfnuðunum hægra fyrir að kjósa presta sína en nú er. Í prestkosningalögum þeim, sem nú eru í gildi, er, eins og kunnugt er, ekki nema einn kjörstaður í hverju prestakalli, en í fjölda þeirra eru 3–4 sóknir, eða þaðan af fleiri. Það er því töluverðum erfiðleikum bundið sumstaðar fyrir menn að nota kosningarrjett sinn, enda eru þess eigi fá dæmi, að kjörfundir hafi verið illa sóttir.

Kæmist sú breyting á, sem tillagan fer fram á, þá má vænta þess, að kjörfundir yrðu betur sóttir og vilji kjósenda kæmi betur í ljós.

Sjálfsagt þyrfti um leið að breyta fyrirkomulaginu, sem nú er um kjörstjórnir, þannig að undirkjörstjórn yrði skipuð i hverri sókn, og ein yfirkjörstjórn í hverju prestakalli, er hjeraðsprófasturinn ætti forsæti í. Um leið þyrfti og að breyta til með kjörseðlana, svo að þeir yrðu með sömu gjörð og kjörseðlar við alþingiskosningar. Jeg hefi minst á breytingu þessa við biskupinn, og telur hann hana muni verða til bóta.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, en vona að háttv. deild taki tillögunni vel, og leyfi henni fram að ganga.