21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Þorleifur Jónsson:

Það eru að eins fáein orð út af því, sem háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) sagði. Honum fanst að eg hefði komist í mótsögn við sjálfan mig, þar sem eg hefði gefið í skyn, að lögin væri þarfleg, en hins vegar viljað draga úr framkvæmdum á útvegun baðlyfja. Þetta var þó ekki mín meining, því að þótt eg haldi því fram, að skaðlaust væri, að ákvæðið um að stjórnarráðið hefði hönd í bagga um útvegun baðlyfja félli niður, þá er þar með ekki loku skotið fyrir, að hægt sé að ná í baðlyf. Í Austur Skaftafellssýslu hafa alt af fengist baðlyf í verzluninni á Hornafirði, en ef fylgja ætti þeirri auglýsingu, sem stjórnarráðið hefir nú gefið út, get eg ýmyndað mér að þau yrði seint komin þangað austur, með þeim samgöngum, sem nú eru til Hornafjarðar. Eg sé ekki að frá því sjónarmiði séð, sé nokkur bót að þessu ákvæði í lögunum. Eg er ekkert hræddur um, að menn þar austur frá yrði í nokkrum vandræðum með að útvega sér baðlyf þó að stjórnarráðið hefði þar engan þátt í. Menn geta líka gert sér nokkurn veginn í hugarlund, hversu hagkvæmt það sé að láta stjórnarráðið útvega baðlyfin, þegar þau baðlyf, sem það lögildir og bendir á sem hin einu útvöldu hér í auglýsingu þess, sem eg fekk í hendur rétt í þessu, eru dýrari heldur en á Hornafirði, þó afskektur sé. (Eggert Pálsson: Þau eru þá máske betri). Það efast eg um. Þau baðlyf, er þar hafa fengist, hafa reynst mjög vel, og skal eg geta þess, að sýslunefndin hefir látið það álit sitt í ljós, að æskilegt væri að fá að halda sömu baðlyfjum eftirleiðis. En í auglýsingu stjórnarráðsins eru þessi baðlyf útilokuð. Hvernig fer nú, ef menn geta ekki náð í þau baðlyf, sem hér eru fyrirskipuð í þessari stjórnarráðsauglýsingu? Er það þá lögleg böðun, ef baðað er úr sömu baðlyfjum og áður ? Eða má þá ekki baða?

Eg er ekkert hræddur um, að nein vandræði verði úr útvegun baðefnis, hvorki fyrir Öræfingum né öðrum, þó að ekki haldi áfram þessi landsverzlun með það. Baðlyf stjórnarinnar eru talsvert dýrari heldur en þau, sem áður hafa fengist hjá kaupmönnum, eins og áður er tekið fram. Eg tel slíka landsverzlun ekki heppilega. Og þó að háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) vilji vera að bera afskektu héruðin fyrir brjósti, þá held eg að það sé óþarfi. Þau hafa hingað til komist af, og það verður ekki verra að eiga við kaup á baðlyfjum hér eftir heldur en áður, þótt stjórnin verði eigi látin vasast í þessu.