24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Eg skal játa það, að það er ekki gott að bæta þessi lög svo, að þeim líki, sem eru þeim virkilega mótfallnir. En ef menn hafa nokkurt traust á hreppsnefndum, þá verða menn að búast við því, að þær sjái um, að baðefnin sé til og að lögin komi að haldi. Og hvað það snertir, að hættan sé minni eins og nú er, á því að svo fari, þar sem bæði megi sekta hlutaðeigandi bændur og hreppsnefnd, ef trassað sé að baða, þá yrði það alveg eins, þótt þetta næði fram að ganga. Ef hreppsnefndir hlutast ekki, til um, að lögunum sé fylgt forsvaranlega og baðefni eru ekki næg til, þá má koma við sektum. (Eggert Pálsson : Hver á að kæra?). Það eru nógir til þess. Þetta eru bara tylliástæður, sem eru einskis virði. Til þess þarf ekki nema einn mann, og það færi í engum hreppi svo, að enginn yrði til þess. Og ef menn vantreysta mönnum svo, að þeir ætla að enginn muni ljósta upp brotum, þá er ekki til neins að vera að setja nein sektarákvæði.

Annara vildi eg óska þess, að háttv. þm S.-Þing. (P. J.) vildi láta það í ljósi, hvort brt. mín er ekki samkvæm þeirri bendingu, sem hann gaf við 2. umr. málsins. Sú bending var góð, og eg skil ekki í öðru, en að þeir, sem vilja líta, sanngjarnlega á málið, sjái það, að með henni er fyllilega bætt úr því, sem á mína fyrri till. brast.