30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Björn Kristjánsson :

Mjer finst það ekki liggja hjer fyrir að svara fyrirspurn háttv. þm. N.-Þing. (B. S.). Þótt stjórninni sje gefin heimild til að víxla svo miklu af handbæru fje landsins í gull sem hægt er, þá liggur það ekki hjer fyrir að ráða fram úr, hvernig það skuli gjöra. Annars býst jeg við að stjórnin snúi sjer til bankanna hjer, og afli sjer vitneskju um það, hvert lið þeir geta hjer veitt, hvað þeir eigi inni hjá erlendum bönkum o. s. frv. Sömuleiðis gjöri jeg ráð fyrir, að hún muni leita til skrifstofu sinnar í Kaupmannahöfn um það, hvort hún geti ekki eitthvað stutt að þessu með ráðum og upplýsingum

Jeg endurtek það, að mjer finst það ekki liggja hjer fyrir að gefa stjórninni lífsreglur um það, hvernig hún skuli haga

sjer í þessu máli. Með tillögunni er henni engin skuldbinding lögð á herðar um að víxla öllu handbæru fje landssjóðs í gull, heldur að eins farið fram á að hún leitist við, að gjöra svo mikið sem unt er til að afla gullsins.