30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Benedikt Sveinsson:

Þegar þetta mál kom til athugunar á flokksfundi sjálfstæðismanna, spurði jeg, hvernig menn hugsuðu sjer að landssjóður borgaði það, sem hann kann að kaupa í útlöndum af nauðsynjum, því að mjer var það alls ekki ljóst, og sýnist það talsverðum annmörkum bundið.

Jeg held að ekki geti komið til mála að senda botnvörpuskip til Englands með gull, eins og háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.) gjörði ráð fyrir. Það væri ekki vel örugt á ófriðartímum. Þá held jeg og, að vjer getum ekki borið mikið traust til ávísana á banka í Höfn, ef Danmörk lendir í hershöndum. Eins og nú stendur, virðist tvísýnt um verslunarsambönd Íslands við önnur lönd en Vesturheim.