12.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

122. mál, gerð íslenska fánans

Ráðherra (S. E.):

Jeg ímynda mjer að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), jafn lengi og hann er búinn að vera ráðherra, skilji það ógnvel, að mjer muni hægt að fá vitneskju um vilja konungs að því er gerð og lit fánans snertir, áður en jeg ber málið formlega upp fyrir konungi.

Háttv. þingm. þarf því engan kvíðboga að bera fyrir því, að það valdi mjer örðugleika, þó hið háa Alþingi gjöri þrjár tilögur um lit og gerð fánans. Að sjálfsögðu gjöri jeg að eins eina tillögu til konungs eftir að jeg hefi kynst vilja hans um málið, en því hefi jeg lýst yfir, að jeg setji enga ákveðna fánagerð á oddinn, þó jeg hinsvegar að sjálfsögðu reyni að koma þeirri fánagerð fram, sem jeg hygg að þjóðinni sje kærust, ef jeg á þess kost, að fá slíka gerð staðfesta.