13.08.1914
Sameinað þing: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

130. mál, gjaldmiðill

Einar Arnórsson :

Jeg gaf það í skyn við hv. samflutnm. minn um till., (S. B.), að mjer líkaði ekki allskostar síðasta setning hennar, og þess vegna leyfði jeg mjer að koma fram með þá brtt., sem hv. forseti las upp áðan.

Eins og hv. samflutnm. minn (S. B.) tók fram, var hjer fyrir þinginu frv. til laga um aukinn seðlaútgáfurjett til handa Íslandsbanka, og með því formi og efni var það samþykt af Nd. með 20:3 atkv., ef jeg man rjett, og afgreitt til Ed. Vitanlega var þetta frv. að eins ætlað til bráðabirgða, þar sem það átti ekki að gilda lengur en til októberloka næsta ár. En þó að Nd. samþykti frv. með svo miklum atkvæðamun, þá fór svo ólíklega, að Ed. hafði ekki meira við það en svo, að hún afgreiddi það með rökstuddri dagskrá. Ed. sýnist hafa verið sammála meiri hl. nefndarinnar í Nd. um það, að rjett væri, áður en fullnaðarákvörðun væri tekin um að veita Íslandsbanka aukinn seðlaútgáfurjett, að taka skipulag hans á ýmsan hátt til athugunar, og ef aðstandendnr bankans sæju sjer það fært, þá breyttu þeir því til batnaðar, ef þeir vildu síður fara fram á þenna rjett.

En í rökstuddu dagskránni, sem samþ. var í Ed., er ekkert vikið að því, að þörf geti verið á auknum gjaldmiðli í landinu. Með leyfi hv. forseta skal jeg lesa dag- skrána upp, af því að jeg býst ekki við, að allir hv. þm. hafi sjeð hana :

„Í því trausti, að stjórnin taki til athugunar, hvort ekki sje ástæða til, áður en seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka sje aukinn, að breytt verði fyrirkomulagi bankans og eftirliti með starfsemi hans, sjerstaklega með tilliti til þess, sem fram hefir komið við meðferð málsins á Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Eins og menn heyra, er hjer ekki vikið einu orði að því, að ástæða geti verið til þess að auka gjaldmiðil í landinu fyrir næsta þing. Að vísu er það ekki meiri hl. alls þingsins, sem hefir afgreitt málið á þenna hátt, heldur að eins 10–11 menn, en þeir eru lögformlega nógu margir til þess að fella eitt frv.

Þar sem meðferð málsins í þinginu var slík, getur stjórnin ekki dregið þá ályktun af henni, að hún hafi heimild til að gefa út bráðabirgðalög um aukningu á seðlaúlgáfurjetti bankans. Eina rökrjetta ályktunin, sem af þessu verður dregin, er sú, að þingið álíti ekki neina ástæðu vera til slíkra ráðstafana. Ef stjórnin gjörði þær, þá mætti segja með fullum rjetti, að hún bryti beinlínis bág við yfirlýstan vilja þingsins.

Eins og hv. samflutnm. minn (S. B.) tók fram, hafa nokkrir kaupsýslumenn hjer í bænum beint þeirri málaleitun til Nd., hvort ekki væri unt að gjöra einhverjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir skort á gjaldmiðli í landinu, sem margir væru nú farnir að óttast. Það er óþarft við þessa umræðu að rökræða það, hvort þessi ótti hefir við nokkuð að styðjast eða ekki. Það skiftir í rauninni: ekki miklu máli. Háttv. Sþ. mun sýna það með atkvæðagreiðslunni, hvort það lítur svo á, eða ekki. En ástæðan til þess að við höfum leyft okkur að bera fram þessa tillögu, er sú skoðun okkar, að aðví geti rekið, að skortur verði á gjaldmiðli í landínu. Það er enginn efi á því, að neðri deild lítur eins á þetta mál, þar sem hún samþykti frv., sem jeg gat um: áðan. En eins og jeg mintist á, getur stjórnin þrátt fyrir það, ekki ályktað svo, að þingið í heild sinni líti þannig á málið, þar sem frv. fjekk þessa meðferð í Ed. sem jeg gat um. Við höfum því borið till., fram til þess að taka þá ábyrgð af stjórninni, að þurfa, ef til kæmi, að ráðast í, upp á sitt eindæmi, að gjöra einhverjarráðstafanir í þessu efni. Hún hlyti að óttast allar slíkar aðgjörðir, ef þingið ljeti við það sitja, sem það hefir nú gjört í þessu: máli. En ef till. á þingskj. 516 verður samþykt, þá getur stjórnin skírskotað til hennar því til sönnunar að þingið hafi ekki í raun rjettri verið þeirrar skoðunar, að full vanþörf væri á því að auka rjettinn til þess að gefa út gjaldmiðil. Stjórnin mundi þá verða öruggari að gjöra ráðstafanir í þessa átt á milli þinga, ef hún hefði þessa yfirlýsingu, sem í till. felst,. á bak við sig.

Þá skal jeg víkja að brtt. minni á þgskj. 517. Það sem jeg hefi fyrir mjer, er það,. að jeg er ekki sannfærður um, að það sje á nokkurn hátt löglegt, að landssjóður gefi sjálfur út gjaldmiðil. Byggi jeg það á 8. gr. laga nr. 66, 10. nóv. 1905. Af því að jeg er ekki sannfærður um, að það sje löglegt, vil jeg ekki að sameinað Alþingi samþykki slíkt ákvæði í tillöguformi. Væri það óviðkunnanlegt, ef seinna skyldi svo koma í ljós, við nánari athugun, að það væri ólöglegt. Jeg vil að stjórninni sjeu gefnar frjálsar hendur í þessu efni; en; vitanlega getur hún engu síður farið eins að og til er tekið í till., ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu, að það væri löglegt, eða ef hún kæmist að samningum um það við rjetta hlutaðeigendur.

Hv. þm. Vestm. (K. E.) hefir einnig komið fram með brtt. á þgskj. 518. Hún fer skemra en brtt. mín, og skilst mjer, að hún komi því að eins til atkvæða að mín till. verði ekki samþykt. Ef það yrði álitið, að landssjóður hefði löglega heimild, eða tengi löglega heimild til að gefa sjálfur út gjaldmiðil, þá kæmi þessi till. að góðu haldi.

Þá er hjer var komið umræðum höfðu þessir þingmenn:

Hannes Hafstein,

Eggert Pálsson,

Jóhann Eyjólfsson,

Guðm. Ólafsson,

Einar Jónsson,

Jón Magnússon,

Björn Hallsson,

Þórarinn Benediktsson

afhent forseta ósk um það, að umræðum yrði hætt.

Bar forseti þá undir þingið, hvort umræðum skyldi hætt, þegar þeir menn hefðu lokið máli sínu, er þá höfðu beðið sjer hljóðs. Var það samþykt í einu hljóði.