13.08.1914
Sameinað þing: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

130. mál, gjaldmiðill

Björn Kristjánsson:

Jeg hjelt að jeg hefði sýnt nægilega fram á það í Nd. um daginn, að hjer væri engin þörf á verðlausum brjefpeningum. Jeg benti á, að til væri í landinu af slíkum peningum sem svaraði 38 kr. á hvert höfuð landsmanna; langt fram yfir það, sem gjörist í öðrum löndum. En fram að árinu 1907–1908 var ekki leyft að gefa út af brjefpeningum í Danmörku meira en 32 kr. á höfuð. Menn skilja það ekki enn, að seðlarnir eru ekki gjaldgengir annarstaðar en á Íslandi, og liggja því einungis í vösum Íslendinga.

Og halda menn, að fyrir það, að öll viðskifti við útlönd teppast, þá liggi meira í vösum manna? Það eina gagn, sem Ísandsbanki gæti haft af því, að fá aukinn seðlaútgáfurjett, væri það, að fara með seðlana á pósthúsið og biðja landssjóð að innleysa þá erlendis með gulli. En það var aldrei meiningin með lögunum frá 1. ág. 1914.

Jeg er meðsemjandi að þessari þingsályktunartillögu, en það er ekki af því að jeg skoði seðlana nauðsynlega; jeg vildi að eins gjöra það til samkomulags. En því að eins get jeg fallist á þessa till., að það sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) vill fella burtu, fái að standa. Jeg hefi þá skoðun, að við eigum að fara að eins og önnur lönd, t. d. Danmörk, hafa gjört, og látum landssjóðinn sjálfan gefa út gjaldmiðil, ef hans væri þörf. Nú hefir verið sagt, að ekki væri lagaleg heimild til þess, nema til kæmi samþykki Íslandsbanka. En þegar á að veita honum einum lánið, þá skil jeg ekki að það geti verið lagabrot, að landið sjálft gefi út gjaldmiðilinn. Þess vegna skil jeg ekki rök hv. 2. þm. Árn.

(E. A.), og því fremur er jeg hissa á þessari till. hans, þar sem hann í nefndinni í Nd. greiddi atkvæði á móti því að seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka væri aukinn.

Eins og jeg hefi margsagt, hefi jeg ekki þá skoðun, að þörf sje á verðlausum brjefpeningum. En ef þörf þætti á þeim, væri hægt að bæta úr því með þessu móti. Það var gjört á þenna hátt í Danmörku 1907; leyft með konungl. auglýsingu að Þjóðbankinn mætti um 2 ára bil gefa út meiri seðla en ákveðið hafði verið, gegn því að greiða 5% vexti af ógulltrygðu seðlunum, sem við var bætt. Hjer er farið fram á að Íslandsbanki greiði að eins 4% af seðlaláninu; það er sama eins og honum væri lagt til sparisjóðsfje. En Danir tóku hærri rentu en hjer er lagt til í till., 5% en ekki 4%.

Það hefir verið talað um að þörf væri á peningum til þess að útleysa farma. En hvert ganga svo þeir peningar? Þeir ganga strax til útlanda, en þar ern íslenskir seðlar ekki gjaldgengir. En því má ekki nota tjekka, eins og annars er gjört, bæði til almennings hjer á landi og til útlanda? Sá banki, sem tekur að sjer að borga hjer út slíka farma, og sem á altaf inni erlendis, hlýtur að áskilja sjer að mega borga með tjekkum á þá inneign, eða að fá inneignina flutta til landsins eftir hendinni. Gjöri hann það, þá hefir hann nógan gjaldmiðil, nema hann taki upp á sig stærri viðskifti en hann ræður við. Það getur verið varhugavert að gefa út seðla til þess að leysa út farma eins og nú er ástatt. Reynsla er þegar fengin fyrir því að , svo er. En jeg vil ekki nefna einstakt dæmi.

Með till. álít jeg að stjórnin sje skuldbundin til að gjöra þetta, sem tillagan fer fram á, að hún láti landssjóð gefa út seðla og láni þá síðan Íslandsbanka einum gegn 4% vöxtum og tryggingu. Þvi að eins greiði jeg atkvæði með till. að tillagan verði samþykt óbreytt.

Til þess að sanna enn betur, að það sje rjett, sem jeg hefi haldið fram í þessu máli, að varhugavert sje að gefa út ofmikið af verðlausum seðlum, sem ekkert gull liggur bak við, vil jeg, með leyfi hv. forseta, lesa upp lítinn kafla úr Hage's Haandbog í Handelsvidenskab, bls. 800, þar sem talað er um „krisis“, með öðrum orðum um það ástand, sem nú er hjer. Þessi kafli hljóðar svo:

Viser det sig, at Bankerne ikke er Herre over Sitnationen, kan der blive Anledning for Staten til at træde til, navnlig ved at stötte det ledende Pengeinstitut, enten direkte ved Laan, eller til at give Tilladelse til midlertidig at benytte Metalreserven, altsaa at overskride den sædvanlige Seddelgrænse. En saadan foröget Seddeludstædelse kan paa den anden side være meget mislig, naar Seddelomlöbet allerede í Forvejen er af stort Omfang.

Nú hefi jeg áður sýnt fram á, að hjer stendur svo á að „Seddelomfanget“, sem hjer er kallað, er mjög mikið. Og eins og menn heyra er dómur Hage's sá, að þá sje mjög hættulegt að auka seðlaútgáfuna, þegar svo á stendur.

Þessi renta, sem bankarnir eru alment látnir borga, ef þeir fá að auka seðlana fram yfir þá upphaflegu, fastákveðnu upphæð, er til þess að koma í veg fyrir, að þeir fari að „spekulera“ of mikið með verðlausa pappíra, og til þess að stemma stigu fyrir að alt gull fari úr landi. Í Danmörku var, eins og jeg sagði, tekin 5% renta, í Þýskalandi er sömuleiðis tekin 5%, í Noregi minst 6% og í Frakklandi ¼ af „diskontónni“, ef hún er fyrir neðan 5%, annars miklu meira.

Að svo mæltu legg jeg það eindregið til, að þessu verði hagað hjer eins og annarstaðar tíðkast, og að till. verði samþykt án nokkurra breytinga.