13.08.1914
Sameinað þing: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

130. mál, gjaldmiðill

Karl Einarsson:

Jeg skal lýsa því yfir, að jeg kom með brtt. mína fyrir það, að jeg var ekki viðstaddur, þegar fyrirvarinn var samþyktur. En mjer er sagt, að allir þeir, sem viðstaddir voru, hafi fallist á till. eins og hún er orðuð, og síðari hlutann líka. Þess vegna kom mjer það hálfundarlega fyrir, að einn flutningsmaðurinn skyldi bera fram brtt. við hana.

Annars lýsti jeg því skýrt yfir við umr. í Ed., um seðlaaukningu Íslandsbanka, að jeg teldi stjórnina hafa fulla heimild til þess, meðan ófriðurinn stæði yfir, að gjöra það, sem gjört er ráð fyrir í þessari till. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir, ef þessi till. yrði samþykt, þá teldi hann sig hafa heimild til að leyfa Íslandsbanka að gefa út seðla fram yfir þá seðlaupphæð, sem hann nú má gefa út. Jeg er á annari skoðun um þetta, og álít að slík heimild felist ekki í till. hv. 2. þm. Árnesinga. Hvað það snertir, að það sje brot á bankalögunum frá 1905 að samþykkja það, sem þessi till. fer fram á, þá get jeg ekki álitið að svo sje. Þau lög hafa þá æði oft verið brotin á þessu þingi, og meðal annars með gulllögunum, sem samþykt voru um daginn. Menn verða að gá að því, að hjer er um alveg sjerstakar ráðstafanir að ræða, sem því að eins koma til greina, að viðskiftalífi landsins verði stofnað í voða, vegna styrjaldarinnar, sem nú er í heiminum.

Jeg skal svo ekki fara frekari orðum um þetta. Brtt. mín er svo ljós, að hana þarf ekki að skýra. Hún fer að eins fram á það, að landsstjórninni verði heimilað að gefa út gjaldmiðil, og lána síðan hvorum bankanum sem hún vill. Jeg vona að hv. sameinað Alþingi samþykki þessa brtt. mína, en felli brtt. hv. 2. þm. Árn. (E. A.).