03.08.1914
Sameinað þing: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

Stefnuskrá ráðherra

Ráðherra. (Sigurður Eggerz) :

Eins og hinu háa Alþingi er kunnugt, hefir Hans hátign konungurinn útnefnt mig ráðherra 21. f. m.

Mjer er það ljóst, að ótal erfiðleikar bíða mín í þessu embætti. Mjer er það ljóst, að jeg hefi tekist á hendur ábyrgð, sem herðar mínar eru helst til veikar til að bera. En þrátt fyrir það liggja nú fyrir þinginu ýms þau mál, sem hugur minn fylgir svo fast, að löngun mín til að vinna að heppilegum úrslitum þeirra hefir orðið ríkari en kvíði sá, sem jeg ber fyrir því, að kraftar mínir reynist eins miklir og skyldi.

Eitt af þessum málum er stjórnarskrármálið, sem liggur nú fyrir háttv. neðri deild. Í því felast ýmsar þær rjettarbætur, sem þjóðin hefir þráð um langan tíma, rjettarbætur, sem jeg tel miklu skifta. Jeg skal minna á afnám konungkjörinna þingmanna og rýmkun kosningarrjettarins. Stjórnarskrárfrumvarp þetta er yfir höfuð þannig vaxið, að jeg hygg að þing og þjóð fylgi því nálega óskift. En jafn óskiftur mun og hugur þings og þjóðar um það, að þær ráðstafanir, sem gjórðar verða jafnframt staðfesting stjórnarskrárfrumvarpsins, verði þannig vaxnar, að sjermálasvið vort verði ekki þrengt með þeim. Um hitt er aftur ágreiningur, hverjar ráðstafanir þrengi sjermálasvið vort og hverjar ekki. Hjer í landi hefir nú verið deila um það, hvort ráðstafanir þær, sem gjörðar voru í ríkisráðinu 20. okt. 1913, og opið brjef, sem gefið var þá út, mundi, jafnframt fyrirhuguðum úrskurði um uppburð sjermála vorra í ríkisráði, verða þess valdandi, að uppburður þeirra, sem vjer jafnan höfum skoðað sem sjermál vort, mundi, að slíkum úrskurði fengnum, verða skoðaður sem sammál. Jeg geng út frá, að hinn fyrirhugaði úrskurður verði á þá leið, að í honum standi ekki annað en að málin skuli borin upp í ríkisráði. Hjer er ekki staður nú til að fara frekar inn á þessi ágreiningsmál. Að eins vildi jeg taka fram, að mín skoðun er sú, að rjett sje, að þingið á tryggilegan hátt fyrirbyggi, að sá skilningur verði lagður inn í ráðstafanir þær, sem gjörðar voru í ríkisráðinu 20. okt., og opna brjefið, að fornum rjetti vorum til að ráða því með konungi vorum, hvar sjermál vor verði borin upp, verði í nokkru haggað.

Ekki svo að skilja, að jeg vilji amast við því, að málin verði borin upp í ríkisráði; að eins leggja áherslu á það, að það sje mál milli konungs og vor, hvar málin verði borin upp.

Jeg hefi skýrt Hans hátign konunginum frá því, að jeg gæti ímyndað mjer, að hið háa Alþingi, jafnframt því að samþykkja stjórnarkrárfrumvarpið, mundi gjöra fyrirvara í þá átt, að haldið væri fast við að uppburður sjermála vorra verði sjermál vort. Hans hátign konungurinn gaf ekki fyrirheit um að samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið með slíkum fyrirvara, en sagðist þá fyrst geta tekið ákvörðun um það, er hann sæi, hvernig fyrirvarinn væri orðaður.

Það er samt von mín, þó að eins von mín og trú, eftir að jeg hefi kynst hinum ríka velvildarhug, sem konungur ber til vor, að sú muni reyndin verða á, að vjer fáum staðfest frumvarp það, sem fyrir þinginu liggur, með hæfilegum fyrirvara í þá átt, sem að ofan greinir, og því fremur er það von mín, sem jeg veit, að greiðasti vegurinn til að auka samúð milli Danmerkur og Íslands, er einmitt sá, að fult tillit sje tekið til rjettmætra krafa vorra, og þá einkum þegar kröfurnar eru þannig vaxnar, að frá danskri hlið getur ekkert verið athugavert við þær. Það er að öðru leyti skoðun mín, að þegar vjer höfum fengið stjórnarskrármálinu og fánamálinu ráðið til lykta á viðunanlegan hátt, eigum vjer að forðast ágreiningsmálin milli Íslands og Danmerkur, en snúa öllum hug vorum að innanlandsmálum vorum. Verkefnin bíða vor hjer á öllum sviðum. Vjer hljótum að leggja meiri rækt við landbúnað vorn en hingað til hefir átt sjer stað; grænu blettunum verður að fjölga í landinu. Sjávarútvegurinn verður að eflast. Vjer eigum ekki ráð á að halda gullkistunni kring um landið lokaðri lengur. Lyftistöng allra framfara, samgöngur bættar á sjó og landi, þurfa að verða heitasta hjartans mál vort. Ekkert sjálfstæðisspor hefir verið stígið fastara í landi voru en stofnun ísl. eimskipafjelagsins, og því máli vil jeg fylgja með alhug, enda veit jeg að hugur þjóðarinnar vakir yfir engu máli meir en því.

Jeg heiti því, að leggja alla krafta mína fram til þess að vinna að heill landsins. Sjerstaklega nú á þessum ófriðartímum mun stjórnin gjöra sjer far um að tryggja velferð landsins, og hygg jeg að fullyrða megi, að þær ráðstafanir sjeu nú gjörðar af þingi og stjórn, að ekki þurfi að bera kvíðboga fyrir ófriðnum. En jeg veit það betur en nokkur annar, að minn eiginn kraftur er mjög takmarkaður. En það er ekki kraftur einstaklingsins, heldur kraftur einstaklinganna, sem lyfta velferðarmálum þjóðanna. Og að því vil jeg vinna; það vil jeg styðja, að stilla saman þá strengi, þá mörgu strengi, sem geyma framtíðarvortóna íslensku þjóðarinnar.

Jeg ber þá von í brjósti, að rjettlætistilfinning mín megi jafnan verða vakandi í embætti þessn, og jeg vona það, að allir þeir, sem eiga undir mig mál að sækja, megi finna, að þeir eigi ekki við ráðherra ákveðins flokks, heldur við ráðherra Íslands. Og þó svo færi, sem undanfarin reynsla hefir bent á, að stundum kunni að anda kalt í kring um ráðherrastólinn, þá vona jeg og óska, að rjettlætislöngun mín megi ekki frjósa í þeim kulda. Jeg óska þess hvorki að ráðherratíð mín verði stutt nje löng; um það hefi jeg engar óskir; en hins vildi jeg óska, að jeg mætti leggja þó ekki væri nema lítið laufblað í þann hamingjusveig, sem vjer allir viljum fljetta um höfuð ættjarðarinnar.