24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Eg ætla ekki að segja margt, en það var eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Eyf. (St. St.), er hann virtist vilja nota til stuðnings máli sínu, það sem sé, að stjórnarráðið hefði orðið svo seint fyrir með fyrirskipanir sínar viðvíkjandi baðlyfjunum og þar með í raun og veru sjálft brotið lögin eða gert öðrum ómögulegt, að framfylgja þeim í þetta sinn. En í þessu sambandi verður að gá að því, að þetta er í fyrsta sinn, sem lögin koma til framkvæmda, svo að hér er ekki nema um eðlilegan eða afsakanlegan drátt að ræða. Hins vegar mætti vel búast við því, ef lögin væri látin óhreyfð, að þá yrði þeim framfylgt fullkomlega í framtíðinni, svo í þessu efni sem öðru. En þar sem hv. þm. ályktar af þessu eina tilfelli, að ókleift sé að birta þessi fyrirmæli út um landið í tæka tíð, þá bætir frv. hans alls ekkert úr skák í þessu efni. Þar er sem sé ákveðið, alveg eins og í núgildandi lögum, að stjórnarráðið tiltaki, með ráði dýralæknis, hvaða baðefni skuli nota, og sé því ákvæði haldið, þá geta hreppsnefndir vitanlega ekki gert sínar ráðstafanir fyrr en auglýsing um þetta efni er komin frá stjórninni. Hér er því um alveg sömu bið að ræða, eina og eftir fyrirkomulagi núgildandi laga. Ef forðast hefði átt þenna drátt, þá hefði ekki mátt leggja það á vald stjórnarinnar að tiltaka baðefnin, heldur láta hvern einstakan ráða því, eins og honum sýndist, hvaða baðlyf hann notaði. Í því gat verið einhver meining, þótt það væri í raun og veru hið sama og afnema böðunarlögin. En með því fyrirkomulagi, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er ekkert bætt úr skák í þessu efni. Láti stjórnarráðið dragast úr hófi, að tiltaka hver baðlyf skuli nota, þá er það jafn bagalegt, hvort sem þetta frv. verður gjört að lögum, eða hin gildandi lög fá að standa óbreytt.