23.07.1914
Neðri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Umboðsm. ráðh. (Hl. J.):

Eg hafði ekki búist við neinum umræðum nú við framhald 1. umr. og hafði því ætlað mér að geyma allar athugasemdir til 2. umr., ef til hennar kæmi, meðan eg á hér sæti. En þar sem því nú hefir verið lýst yfir að afráðið sé að drepa frv. þegar við þessa umr., þá vil eg þó grípa tækifærið meðan það gefst, að minnast á tvö atriði, sem sérstaklega snerta stjórnina. Hið fyrra er lánveitingarheimildin til læknisseturs í Búðardal. Háttv. framsögum. (P. J.) lýsti því yfir, að nefndin hefði litið svo á, að stjórnin hefði heimild til að veita slík lán. Það hefir þótt álitamál að undanförnu, en mér þykir vænt um að heyra, að háttv. frams.m. (P. J.) hefir sömu skoðun á þessu og stjórnin hefir haldið fram, að hún hefði heimild til þessa. –Stjórnin hefir veitt lán í slíku skyni og þá sérstaklega til læknissetra, og verð eg með þessu að skoða því slegið föstu, að stjórnin hafi heimild til að veita lán til embættisbústaða.

Hitt atriðið, sem eg vildi minnast á, er styrkbeiðni Magnúsar Guðmundssonar skipasmiðs. Háttv. frams.m. (P. J.) hélt því fram, að þessi maður hefði átt að fá styrk af fé því, sem ætlað er til utanfarar iðnaðarmanna. Þetta er nú svo, en honum hefði ekki gagnað minna en 1500 kr., eins og hann fer fram á. En hinsvegar eru það að eins 3 þús. kr., sem veittar eru í þessu augnamiði í fjárlögunum, og margir menn sækja um styrk af þessu fé, og hefði þá verið harla litlu að útbýta til annarra, ef helmingur ársstyrksins hefði gengið til eins manna. Nú hefir þingið látið það í ljós, að þessi styrkur ætti aðallega að ganga til vélagæzlumanna, sem mikill hörgull hefir verið á og er enn. Stjórnin áleit því, að þegar farið var fram á svona háan styrk og í ákveðnu augnamiði, að réttara væri að beina erindinu til þingsins. En eftir undirtektum nefndarinnar að þessu sinni vildi eg mælast til að fá að heyra álit hennar um það, hvort það er tilætlun hennar að þessi maður fái næsta ár helming ársstyrksins, sem ætlaður er til utanfarar iðnaðarmanna.