25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

78. mál, sjóvátrygging

Kristinn Daníelsson:

Jeg ætla að skýra frá, hvernig stóð á því, að jeg bar upp brtt. á þgskj. 225. Jeg vissi ekki, að nefndin ætlaði að breyta fyrirsögninni, en kunni annars vegar ekki við orðið hluti, sem er útlent að uppruna. Úr því að brtt. er fram komin, þykir mjer rjett að láta ganga til atkvæða um hana, því jeg kann betur við orðið „kafli“, sem er gott og gamalt íslenskt orð, en orðið „kapítuli“, sem er útlent eins og jeg sagði, þótt það sje nú orðið gamalt í málinu. Þótt þessum lögum verði steypt saman við siglingalögin, sje jeg ekki neitt á móti að nota orðið kafli í þessum lögum. Það verður þá tekið upp í sjólögin.