12.08.1914
Efri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

120. mál, stjórnarskrá

Kristinn Daníelsson :

Eins og athugasemdir þær bera með sjer, sem jeg hefi látið fylgja undirskrift minni undir álit nefndarinnar í þessu máli, þá hef jeg ekki átt alskostar auðvelt með að ráða við mig hvernig mjer fyndist rjettast að snúa mjer í þessu vandamáli. Annars vegar er þrátt og skoðanir manna, sem álíta má, að hafi glöggan skilning á þessu, og hins vegar eigin efasemdir mínar um að þau ráð dygðu til þess að varðveita óskertan rjett landsins. Þetta er mikið vandamál fyrir Alþingi, en vandinn felst ekki í stjórnarskrárbreytingunni í sjálfu sjer. Allur vandinn er fólginn í einu atriði, sem hefir mesta þýðingu fyrir sjálfstæði landsins. Jeg á við ríkisráðsákvæðið og uppburð sjermálanna. Mjer var frá upphafi ekki vel við þetta ákvæði, að konungur rjeði því sjálfur, hvar borin væru upp fyrir honum sjermálin, þótt jeg ljeti það ekki aftra mjer frá að greiða frumvarpinu atkvæði á seinasta þingi. Og þá datt heldur engum í hug að konungur ætti að ákveða þetta öðruvísi en sem þingbundinn konungur. En nú á hann að gjöra það án tilhlutunar Alþingis. Af þessu, að þetta snerist svona í ríkisráðinu, er nú allur vandinn sprottinn, þar sem konungur ákvað, að uppburður sjermálanna skyldi fara fram í ríkisráðinu, og að engin breyting verði á þessu gjörð, nema samþykt yrðu sambandslög af Ríkisþingi Dana og Alþingi, og að þessi stjórnarráðstöfun yrði auglýst fyrir Dönum með undirskrift forsætisráðherrans danska.

Þingið mun ekki ásaka ráðherra fyrir það, þó svo færi um uppburð sjermálanna, að hann yrði í ríkisráðinu, því það bjóst við að svo færi, en að skrifa undir skjal, sem segði enga breytingu geta á þessu orðið, nema Ríkisþingið samþykti lög því viðvíkjandi, til þess var auðvitað aldrei ætlast. Með því er afsalað yfirráðum yfir sjermálum vorum. Og slík yfirlýsing mundi gjöra erfiðari öll viðskifti okkar við konung. Hann findi sig bundinn fyrir þjóðinni dönsku. Þessu tvennu þarf að hrinda af höndum sjer: Að engin breyting verði á þessu gjörð, nema með íhlutun Ríkisþingsins, og að nokkur slík ráðstöfun verði auglýst fyrir Dönum.

En þá veltur á því, hvort þessi fyrirvari (á þingskj. 489) er nægilegur til að gjöra þetta, fyrirbyggja þetta tvent, en sje þó á hinn bóginn ekki hættulegur að koma í veg fyrir staðlestingu á frumvarpinu.

Því er mikill vandi á um hann. Það sem gjörir hann hæfari til annars, gjörir hann óhæfari til hins. Því betur sem hann tryggir rjett okkar, því hættara er við að hann útiloki von um staðfestingu frumvarpsins. Það sem mest á ríður, er að fyrirbyggja þennan misskilning, þessa fyrirætlun að engin breyting verði á þessu gjörð, nema með samþykki Ríkisþingsins. Því verður að velja það orðalag, sem best getur útilokað allan misskilning. Það verður þá frekar að ráðast um stjórnarskrárfrumvarpið, úr því má bæta síðar; hinu ekki. En því verður ekki neitað, að öðru hvoru þessu er hætt. Að vísu munu flestir ætla, að fyrirvarinn sje nægilegur til að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar, en það eru þó hvergi nærri allir. Jeg skal geta þess, að jeg hefi í höndum skeyti frá ágætum Íslandsvini útlendum, sem heldur því fram, að mótmæli Alþingis eftir nýjar kosningar sjeu mjög vafasöm.

Konungur hefir í opna brjefinu sagt: Íslendingar mega samþykkja stjórnarskrána og jeg staðfesti hana, en jeg ákveð, að sjermálin skuli borin upp í ríkisráðinu, og jeg segi þeim það fyrirfram, að á þessu verði engin breyting gjörð.

Aðalatriðið í þessu máli er ekki neitt, sem eftir er, heldur það, sem búið er að gjöra. Úrskurðurinn, sá væntanlegi konungsúrskurður, gengur í gildi þegar búið er að undirskrifa hann, en ákvæðið í opna brjefinu um það, að á þessu verði engin breyting gjörð, gengur strax í gildi, þegar það er sett í brjefið með undirskrift Íslandsráðherra, og heldur áfram sínu gildi.

Spurningin verður þá þessi: Getur fyrirvari fyrirbygt þetta? Hann þyrfti helst að vera svo skýr og ákveðinn, að enginn ljeti sjer detta í hug, að reyna að vjefengja það, svo að við þurfum ekki í framtíðarbaráttu okkar fyrir gengi og velfarnan þjóðarinnar, að tefja okkur á því að glíma við vafaspurningarnar; þær hafa fram að þessu eytt fyrir okkur sorglega miklum tíma og dregið um of hugann frá innanlands velferðarmálum.

Jeg er í vafa um að fyrirvarinn gjöri þetta, þótt margir sjeu fulltrúa um það. Flokkur sá, sem jeg heyri til, er yfirleitt á því, að hann gjöri það, og jeg vil líka vona það; þess vegna hefi jeg ekki heldur viljað setja mig móti honum. En það tek jeg aftur upp, að fyrirvarinn verður að vera svo afdráttarlaus, að hann verði ekki misskilinn, og að hann sýni það greinilega, að opna brjefið 20. okt. byggir á skilningi á uppburði sjermálanna fyrir konungi, sem þingið alls ekki hafði nje mundi hafa viljað viðurkenna.

Háttv. 3. kgk. (Stgr. J.), sagðist ekki vita, hvað meint væri með orðinu áskilja í tillögu meiri hlutans. Það er þó auðskilið; meiningin er sú, að stjórnarskráin verði ekki að lögum á öðrum grundvelli en þeim, sem tillagan tekur fram.

Jeg hef bent á, að mjer hefði þótt óhættara, að fara aðra leið en hjer á að fara; en þess er nú ekki kostur, og því mun jeg greiða atkvæði með þeim fyrirvaranum, sem er skýrari og ákveðnari, en sjálfsagt tel jeg að samþykkja hann áður en stjórnarskrárfrumvarpið er afgreitt til fulls frá þinginu.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meir um málið. Samvisku minnar vegna þóttist jeg þurfa að gjöra grein fyrir skoðun minni; vona jeg að alt fari þó betur en mjer hefir þótt áhorfast, og málalokin verði til þrifa og blessunar fyrir þjóðina.