06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

3. mál, undanþága vegna siglingalaganna

Flutn.m. (Sveinn Björnsson):

Þetta stutta frv., sem hér liggur fyrir, hefir þann tilgang, eins og það ber með mér, að heimila það, að þrátt fyrir gildandi ákvæði siglingalaganna frá 22. nóv. 1913 geti tveir menn, sem hvorki eru hér búsettir, né innbornir, setið í stjórn Eimskipafélags Íslands.

Eins og þegar er orðið þjóðkunnugt, hafa Vestur-Íslendingar tekið drengilegan þátt í félaginu. Þeir hafa skrifað sig fyrir nær 200,000 króna upphæð í hlutafé. Þegar félagið var stofnað og lög þess samþykt var hér staddur fulltrúi þeirra, herra J. Bíldfell, og fór hann þá fram á ýmsar breytingar á frumvarpinu til félagslaganna, sem Vestur-Íslendingar töldu betur fara, og ein af þeim var sú, að þeir fengi, vegna hluttöku sinnar í fjársöfnuninni, að eiga hluttöku í stjórn félagsins, tvo menn af sjö. Þegar félagafrumvarpið lá fyrir stofnfundinum í vetur, kom það og í ljós, að bæði bráðabirgðastjórnin og fundurinn í heild sinni vildi veita þetta, en að það var ósamrýmanlegt við 1. gr. siglingalaganna. En fulltrúi þeirra Vestur-Íslendinga lagði mikla áherzlu á þetta atriði, og því var það, að samþ. var bráðabirgða-ákvæði, sem eg skal leyfa mér að lesa hér upp með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo:

»Ef landslögum kann að verða breytt þannig, að skip félagsins fullnægja ákvæðum laganna um íslenzk skip, þótt 2 Íslendingar, búsettir í Vesturheimi eigi sæti í stjórn félagsins, þá er Vestur-íslenzkum hluthöfum áskilinn réttur til þess að tilnefna Vestur-Íslendinga í þau tvö stjórnarsæti, sem kjósa skal í eftir tilnefningu þeirra samkvæmt 17. gr.«

Þetta bráðabirgðaákvæði, sem samþykt var með því nær öllum atkvæð um, lýsir því greinilega, að hugir manna hafa hneigst í þá átt, sem farið er fram á í þessu frv., og það má skoða svo, sem í því felist tilmæli til alþingis um að fallast á þetta.

Breytingin, sem hér er farið fram á, er undanþága frá 1. gr. siglingalaganna, sem er einskorðuð við þetta félag, stofnað þennan ákveðna dag og lýtur að því einu, að 2 Vestur-Íslendingar megi eiga sæti í stjórn þess. Ákvæðin í 1. gr. siglingalaganna eru sett til tryggingar gegn því, að menn villi þjóðernis-heimildir á skipum, og eg get ekki séð að það sé neitt brot á anda laganna, eða neitt varhugavert, þótt þessi breyting, eða undanþága næði fram að ganga. Félagið er alíslenzkt. Einungis fullnægja ekki þessir menn, sem búa fyrir vestan haf, lögunum að þessu leyti, að þeir eru ekki ríkisborgarar í danska ríkinu.

Eg hygg því að ekkert geti verið á móti því að gera þessa undantekningu. Það skyldi þá vera frá sjónarmiði alþjóðaréttarins. Eg hefi reynt að kynna mér það atriði, en ekkert fundið, er gæti verið til fyrirstöðu úr þeirri átt.

Eg álít að vér megum vera löndum vorum vestra þakklátir fyrir stuðning þann, er þeir hafa veitt oss í þessu velferðarmáli voru, og eg veit að þeim er þetta atriði svo mikið áhugamál, að þeir myndi að öllum líkindum taka enn betur í strenginn — leggja enn meira af mörkum, ef vér létum að vilja þeirra í þessu. Að minsta kosti yrði að skoða það sem alúðarvott við Vestur-Íslendinga, sem aldrei gæti leitt nema til góðs. Eg vænti því þess, að háttv. deild leggi ekki stein í götu þessa frumvarps, ef ekki er neitt það í alþjóðareglum, sem því sé til fyrirstöðu. Og til þess að ganga úr skugga um það, væri líklega heppilegast að setja nefnd í málið, og vil eg því stinga upp á 5 manna nefnd að umr. lokinni.