27.07.1914
Efri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

51. mál, vegir

Karl Einarson:

Jeg hefi komið fram með þessa viðaukatillögu samkv. áskorun frá sýslunefnd Vestmannaeyja og þingmálafundi í Eyjunum. Hefir þetta mál nú verið á döfinni í 2–3 ár. Máli þessu er þannig háttað, að í Vestmannaeyjum liggur bygðin nálega öll á einum stað og svipar að því leyti til kauptúna og einkum kaupstaða landsins. Nú ráða bæði hreppsnefnd og sýslunefnd vegamálum í sýslunni, en sýslu- og hreppsvegirnir liggja hver innan um aðra niðri í þorpinu, og hygg jeg að vegamálunum muni ráðið heppilegast til lykta, ef nefndirnar í samráði eiga að hafa þau mál í höndum, því að enn sem komið er, hefir aldrei verið samvinna milli hreppsnefndar og sýslunefndar í þessu máli.

Annað, sem af þessu leiðir, er það, að allri vinnu er skift í tvent, og er það miklu erfiðara og dýrara, að fá hæfa menn til að standa fyrir verkinu.

Eins og jeg tók fram áður, hefir bæði þingmálafundur í Eyjunum og sýslunefndin þar farið þess á leit, að þessi breyting verði gjörð, og veit jeg ekki til að hreppsnefndin sje henni mótfallin. Jeg vona því að hv. deild taki þessari málaleitan vel og sjái, að heppilegra er, að að eins ein stjórn sje á vegamálum í Eyjunum. Ætla jeg svo ekki að fjölyrða um þessa brtt , en vona að hún verði samþ.