28.07.1914
Efri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

51. mál, vegir

Karl Einarsson:

Jeg á hjer breytingartillögu á þingskjali 222, og hennar vegna var málið tekið út af dagskrá í gær, svo jeg gæti aflað mjer vitneskju frá hreppsnefnd Vestmannaeyja um afstöðu hennar gagnvart tillögunni. Sú vitneskja er nú komin, og ætla jeg með leyfi hæstv. forseta að lesa upp símskeyti, er mjer, hefir borist frá hreppsnefndinni.

„Hreppsnefndin er ekki mótfallin því að sýslunefnd og hreppsnefnd hafi alla stjórn vegamála Vestmannaeyja í sameiningu og ráðstafi sýslu- og hreppsvegafjenu í sameiningu.

Sigurður Sigurfinnsson“.

Jeg vísaði og í gær til sýslunefndar Vestmannaeyinga og þingmálafundar Vestmannaeyinga, er gekk í sömu átt; einnig sagði jeg, að hreppsnefndin væri þessu ekki mótfallin. Jeg vonaðist eftir, að hv. deild tæki orð mín trúanleg, en það kom fram hjá einum háttv. deildarmanna, að það væri vissara fyrir deildina, að fá sannanir fyrir þeim áður en brtt. væri samþykt. Jeg vona að deildin sjái ekki nú nein vandkvæði á að samþykkja hana.