05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Kristinn Daníelsson:

Jeg játa það, að það hefir frá upphafi verið hjá mjer barátta milli holdsins og andans í þessu máli.

Jeg hefi fyrir alllöngu kastað trúnni á latínu og grísku, að þær eigi að skipa öndvegissess í æðri skólum og sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum námsgreinum. Veittu þessar námsgreinar mjer þó mesta ánægju á námsárum mínum, og jeg lagði sjerstaka rækt við þær. Þrátt fyrir þetta vil jeg þó ekki stuðla að því, að forntungukensla sje aukin að nokkrum mun í Mentaskólanum. Jeg vil ekki taka verulega aukinn tíma frá 140–150 nemendum til þessa náms, vegna fáeinna manna, sem gjöra má ráð fyrir að hafi veruleg not af því. En hinsvegar finst mjer það vera stórvafasamt, hvort það hæfi, að svifta þá menn tækifæri til að nema þessar tungur, sem löngun hafa til þess. Vegna þessa átti jeg í talsverðri baráttu við mig um það, hvernig jeg skyldi greiða atkvæði um hina rökstuddu dagskrá, sem borin var fram við 2. umr. Niðurstaðan hjá mjer varð þó sú, að jeg greiddi atkvæði með henni, því að mjer fanst ekki miklu spilt, þótt stofnun þessa embættis drægist til næsta þings. En fyrst dagskráin fjell þá, finst mjer hálf óviðkunnanlegt, að fara nú að samþykkja aðra dagskrá sama efnis, og jeg get ekki neitað því, að mjer þykir það ærið fast sótt, að stytta frv. aldur, að dagskráin skyldi vera vakin upp af. nýju hjer í deildinni eftir afdrif hennar síðast. Jeg held, eftir því sem komið er,. að rjettast sje að lofa hv. Nd. að fá málið til meðferðar. Mjer finst alveg óþarfi að bendla mál þetta við ófrið þann, sem nú geysar; það getur varla komið til mála, að láta hann hafa áhrif á úrslit þess. Hitt er satt, að margt þarf enn að athuga um fyrirkomulag æðri mentamála vorrar en á því stend jeg fast, að eigi sje tiltækilegt að auka forntungnanámið að. nokkrum mun í Mentaskólanum, hvorki: með því að taka upp grískukenslu af nýju,. nje með því að auka latínukenslu svo nokkru nemi.