12.08.1914
Efri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

120. mál, stjórnarskrá

Sigurður Stefánsson:

Jeg tek til máls út af þeim orðum hæstv, ráðherra, að þingið ætti að taka á sig ábyrgð með honum á því, hvernig stjórnarskrármálið yrði afgreitt og því ráðið til lykta af konungi og honum. Þetta get jeg ekki undirskrifað; því að úr því þingið hefir afgreitt málið, þá er það einungis á ábyrgð hæstv. ráðherra, hvernig um það fer úr því. Auk þess er því svo háttað um þetta mál, eins og önnur, að væri um nokkra ábyrgð Alþingis að ræða, að því er fullnaðarúrslit þess snertir, þá hlýtur sú ábyrgð einkum að hvíla á hinum ráðandi flokki.

Annars bjóst jeg við að hæstv. ráðh. mundi koma með gleggri skýrslu um undirtektir konungs undir málið en hann hefir sjeð sjer fært að gefa. Jeg bjóst við að utanför hæstv. ráðherra mundi verða til þess, að hann gæti nú sagt þinginu afdráttarlaust, hvernig konungur mundi taka fyrirvaranum, eða hvernig hann ætti að vera: til þess að konungur gæti gengið að honum. Það hefði verið sjálfsagt fyrir flokk þann, sem styður hæstv. ráðherra, að láta hann hafa fyrirvarann upp á vasann, er hann fór utan, og það bjóst jeg við að flokkurinn mundi gjöra. En þetta hefir einhvernveginn farist fyrir, og því getur hæstv. ráðherra nú ekkert fullyrt um það, hvernig konungur muni taka í frumvarpið með þeim fyrirvara, sem hjer liggur fyrir, samþyktur af háttv. neðri deild. Þessa fullvissu sýnist þingið þó hafa átt heimtingu á að fá í svo mikilsverðu máli, fyrst tækifæri bauðst til að afla hennar.

Þessi óvissa dregur úr því, að jeg geti geti verið ánægður með að samþykkja fyrirvara háttv. Nd. Hefði ráðherra getað flutt oss skýr svör frá konungi, þá hefði verið alt öðru máli að gegna; þá hefðum við vitað að hverju var að ganga og getað hagað okkur eftir því, og þá hefði fyrirvari neðri deildar ekki verið annar eins óskapnaður og hann er.