18.07.1914
Efri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Framsögum. (Sigurður Stefánsson) :

Nefndin hefir í áliti sínu leitast við að gjöra nokkurn veginn ljósa grein fyrir skoðun sinni á málinu. Jeg sje því ekki ástæðu til að fjölyrða um það. Mjer er heldur ekki neitt kappsmál, að það komist fram á þessu þingi.

Sú er ástæðan til frumvarpsins, að mjer og ýmsum þykir, eins og nú á stendur, stefnt í óvænt efni með þekking á forntungunum, grísku og latínu. Aðalspurningin í þessu efni er sú, hvort Íslendingar eigi að fella sig við, að gríska og latína hverfi algjörlega úr námsgreinatölu í skólum vorum og skólamentun. Nefndinni dylst eigi, að ærin vandkvæði verða á kenslu og á námi ýmsra fræðigreina, t. d. læknisfræði, náttúrufræði, sagnfræði og guðfræði, ef þekkingin á forntungunum týnist. Jeg skal nú ekkert fullyrða um, að hverju gagni þetta frumvarp kemur. En meðal yngri mentamanna hófst í vetur hreyfing í þessu máli, sem hjelt því fram,. að eigi hefði verið stefnt í rjetta átt með þeirri breyting, er gjörð var fyrir nokkurri árum á kenslugreinum í lærða skólanum, og þetta frumvarp er í samræmi við þá hreyfingu. Með því að setja þessa kenslu á stofn vill nefndin engan veginn koma í veg fyrir, að kensla í reynsluvísindum verði tekin upp við háskóla vorn, og hún telur enga hættu á að þetta frv. hindri það, þótt það verði að lögum.

Tildrögin til þessa frv. eru deildinni kunn. Það sjest á þingskjali 110 þar sem prentað er brjef frá nefnd, er stúdentafjelagið kaus í vetur í þetta mál. Það er ekki eingöngu hjer á landi að risin er hreyfing í líka átt og hjer. Það kveður líka allmikið að henni í öðrum löndum. Margir mikilsverðir lærðir mennhafa vakið máls á, að eftirsjá sje í að forntungurnar eru horfnar úr skólunum. Og það eru ekki eingöngu málfræðingar sem halda þessu fram. Læknisfræðingar hafa kvartað yfir því, að nám í sinni grein. gengi tregara, af því að nemendurna vatnaði latínukunnáttu, og að árangurinn yrði minni fyrir það í sögukenslu við háskólann í Kaupmannahöfn er nú farið að kenna latínu.

Þekking stúdenta frá mentaskólanum í latínu mun vera heldur lítil. Jeg hefi heyrt, að einn íslenskur stúdent hafi ekki vitað, af hverju orðið „senatus“ var komið. En nú er það svo kunnugt, að ekki þarf um það að fjölyrða, að fjöldi orða, sem mjög eru notuð í ýmsum vísindagreinum, er kominn úr latínu, og að þau verða ekki skilin, nema menn hafi þekking á þeirri tungu.

Jeg var ekki mikill hvatamaður þess, að háskóli vor væri stofnaður. Jeg áleit, að það mál gæti beðið nokkuð enn. En úr því að hann er nú kominn, vil jeg að hann sje meira en „punt“ eitt. Við verðum að hlynna að honum eftir mætti, reyna að varna því, að hann verði að eins nafnið eitt, og þetta frv. er spor í þá átt.