28.07.1914
Efri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Steingrímur Jónsson:

Jeg talaði fáein orð við 1. umr. þessa máls, og tók það þá fram, að jeg liti svo á, sem þetta frumvarp væri fram komið til þess að reyna að girða fyrir það, að forntungurnar yrðu gjörðar rækar hjeðan úr landi. Það er einmitt af þeirri ástæðu, að jeg er frumvarpinu vinveittur. Jeg veit að sumir líta svo á, að helst ættu latína og gríska að fá sömu yfirráð í Mentaskólanum eins og fyrir manngaldri síðan. Það hygg jeg að sje óhugsandi að verði. En hins vegar er langt stig á milli þess. að hafa einhverja kenslu í forntungunum innanlands, eða gjöra þær landrækar með öllu. Og mjer heyrist, að margir menn óttist, að latínan verði bráðum rekin sömu leiðina úr Mentaskólanum sem grískan, ef ekki verði tekið í taumana. En þetta frumvarp táknar einmitt mótstöðu gegn slíkri

stefnu, og þess vegna þykir mjer vel farið, að það hefir komið fram. Og enn er. það fleira, sem fyrir mjer vakir í þessu máli. Sumir kunna að virða mjer það. til hjegómaskapar, en jeg vil þó leyfa mjer að bera þá spurningu upp, hvort Háskólinn megi heita háskóli, ef klassísk fræði eru ekki kend þar. Það má ef til vill segja, að kenslan í þessum fræðum verði svo veigalítil, að þetta sje ekki nema glisgirni ein, en jeg hygg þó, að með þessu frumvarpi sje stigið spor í rjetta átt. Jeg á því bágt með að vera á móti því. Jeg gæti ef til vill unað því, að afkomendur mínir vissu ekkert í grísku og latinu, en hitt væri mjer í meira lagi ógeðfelt, ef þeir gætu ekki, þó að þeir vildu, fengið neina fræðslu hjer á landi um gríska og rómverska menningu. Jeg vil í því sambandi leyfa mjer að benda á, að frumvarp þetta er um kennarastól í klassískum fræðum. Á gildandi fjárlögum er veitt ofurlítil þóknun fyrir frönskukenslana við Háskólann. Jeg hygg, að aðalmarkmið þeirrar kenslu sje ekki svo mjög: að kenna eitthvað í frönsku, heldur mun hitt vera aðalatriðið, að veita fræðslu um frakkneskar bókmentir. Eins vona jeg að kenslunni verði hagað í klassískum fræðum, að aðaláherslan verði lögð á bókmenta og listasögu fornþjóðanna, en málfræðin heldur látin setja á hakanum.

Jeg gæti að sumu leyti greitt atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá háttv. 6. kgk. (G. B.), því að meðan Garðstyrkurinn helst, getur hver íslenskur stúdent sem vill numið forntungurnar við háskólann í Höfn. En dagskráin beinist ekki sjerstaklega að forntungunum, þvert á. móti. Og þar að auki álít jeg nauðsynlegt, að háttv. Nd. fái þetta mál til meðferðar. Jeg mun því greiða atkvæði á móti dagskránni, en með því að frumvarpið gangi til 3. umræðu.