14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

3. mál, undanþága vegna siglingalaganna

Sveinn Björnsson:

Eins og hv. framsögumaður hefir skýrt frá, þá skaut hæstv. ráðh. því að nefndinni, hvort hún vildi ekki taka til íhugunar atkvæðisrétt landssjóðs á fundum Eimskipafélagsins, borinn saman við atkvæðisrétt Vestur-Íslendinga. Eins og skýrt er frá í nefndarálitinu, þá fóru Vestur-Íslendingar fram á það, að um atkvæðisrétt þeirra gilti nokkuð aðrar reglur en hinar almennu. Í lögum Eimskipafélagsins er svo ákveðið, að 1 atkvæði sé fyrir hverjar 25 kr., en þó svo, að enginn geti fyrir sjálfa sig og aðra farið með fleiri en 500 atkvæði. Þetta þótti umboðsmönnum Vestur-Íslendinga nokkuð hart aðgöngu, þar sem líklegast er að hluthafar í Vesturheimi sæki ekki sjálfir aðalfund, en feli einum eða tveimur Vestur-Íslendingum, sem hingað kæmi um það leyti, er aðalfundur yrði, að fara með atkvæði sitt. Þetta gekk svo í samningum fram og aftur, milli umboðsmanna Vestur-Íslendinga og bráðabirgðastjórnar Eimskipafélagsins og lyktaði þeim samningum svo — eins og sést á 10. gr. laga Eimskipafélagsins, er fylgir nefndarálitinu sem fylgiskjal II —, að Vestur-Íslendingar skyldi hafa atkvæðamagn, sem stæði í hlutfalli við atkvæðisrétt annara, eftir því hve margir mætti á fundi. Þetta skilst glegst á dæminu, sem tekið er í 10. gr. laga Eimskipafélagsins. Þar stendur: »ef aðgöngumiðar hafa verið afhentir fyrir 3/6 alls atkvæðisbærs hlutafjár annars en Vestur-Íslendinga, þá getur umboðsmaðurinn eða umboðsmennirnir neytt á fundinum 3/6 af þeim atkvæðum, sem hann eða þeir eiga, eða þeim hefir verið falin. Af hlutafé landssjóðs telst svo mikið atkvæðisbært, sem nemur 25 krónum fyrir hvert atkv., sem landssjóður hefir«.

Með þessu móti getur farið svo, að hlutfallið verði þannig, að Vestur-Íslendingar hafi meira atkvæðamagn en umboðsmaður landasjóðs, sem hefir 4000 atkvæði. Þetta þótti hv: ráðh. óviðkunnanlegt. Þó gerði hann það ekki að neinu kappsmáli, en áskildi alþingi rétt til að krefjast þess, að atkvæðamagn landssjóðs yrði aldrei minna en atkvæðamagn umboðsmanns eða umboðsmanna Vestur-Íslendinga.

En ef alþingi færi að gera þá kröfu, þá þyrfti að breyta lögum félagsins, og þess vegna trygði ráðherra sér í samningunum fylgi félagsstjórnarinnar til þeirrar breytingar, ef til kæmi; og ennfremur fekk hann loforð hr. J. Bildfells umboðsmanns Vestur-Íslendinga um það, að hann skyldi styðja að því þar vestra, að slík breyting næði fram að ganga á næsta aðalfundi, ef alþingi gerði þá kröfu.

Eina og nú er vikið að í nefndarál., kom það glögglega fram á þingi í fyrra, að það var ekki tilætlunin, að landssj. hefði fullan atkvæðisrétt í félaginu í hlutfalli við fjárframlag sitt til þess. Það var litið svo á, að stjórn þessa félags, sem að mestu er stofnað með tillögum einstakra manna, ætti fyrst og fremst að vera í höndum þeirra sömu manna, en að landssjóður, eða stjórnin fyrir hans hönd, ætti ekki að vera þar alls ráðandi. Og það var einmitt með tilliti til þessarar skoðunar, að ráðherra gekk að því, að þótt landssjóður ætti hluti í félaginu fyrir 400.000 kr., þá skyldi hann ekki eiga nema 4000 atkv. í félaginu. Enda má skoða svo, að af þessum 400.000 kr. sé einar 100.000 kr. beint lagðar til millilandaferðanna, en hitt, 300.000 kr., sé veitt með það fyrir augum, að félagið haldi uppi strandferðum.

Nefndin hefir nú komist að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið rétt af þinginu, að ætlast ekki til þess, að landssj. yrði einn alls ráðandi í félaginu, og leggur hún til, að þingið geri nú engar frekari kröfur fyrir landssjóðs hönd, en þegar eru ákveðnar í samningunum.

Til þess að menn hafi gleggri hugmynd um það, hvernig hlutföll atkvæðamagnsins verða í framtíðinni, hefi eg gert dálítið yfirlit yfir væntanlega útkomu á þeim, eftir því, hve margir sækja fundi af hluthöfum hér, og er þá gert ráð fyrir því, að Vestur-Íslendingingar eigi í félaginu 200.000 kr. hlutafé, sem alt komi fram á fundi, Íslendingar hér heima 350.000 kr. og landssjóður 400.000 kr., þar af 100.000 kr. atkvæðisbærar.

Vil eg nú leyfa mér að setja fram nokkur dæmi :

1. dæmi :

Landssjóður mætir með 100.000 kr. = 4000 atkv. Austur-Íslendingar með 50.000 kr. = 2000 atkv. af 350.000 kr. alls. Þetta er samtals 150/45o af atkvæðisbæru hlutafé auatan hafs, = 1/3, og komi nú tveir Vestur-Íslendingar, 1. með atkvæðaumboð fyrir 125.000 kr. hlutafé, = 5000 atkv., en 2. fyrir 75.000 kr. = 3000 atkv., þá deilist hvortveggja atkvæðatalan með 1/3 og ráða þeir þá báðir til samans 2.666 atkvæðum gegn 6000 atkv. hérlendum. Alla verða atkvæðin þá 8.666.

2. dæmi:

Landssjóður 100.000 kr. = 4000 atkv. Austur-Íslendingar 75.000 kr. = 3000 atkv. Þannig mætt 175/45o = 7/18; 1 V.-Ísl. 150.000 kr.: 7/18 = 2.333 atkv. 2. V.-Ísl. 50.000 kr.:7/18 = 778 atkv. Það samtals = 3.111 atkv. + 7000 atkv. = 10.111 atkv. alls.

3. dæmi :

Landssjóður 100.000 kr. = 4000 atkv. Austur-Ísl. 100.000 kr. = 4000 atkvæði. Þannig mætt 200/45o = 4/9; 1. V.-Ísl. 125.000 kr.: 4/9 = 2.222 atkv. 2. V.Ísl. 75.000 kr.: 4/9 = 1.333 atkv. Það samtals = 3.555 atkv. + 8000 atkv. 11.555 atkv. alls.

4. dæmi :

Landssjóður 100.000 kr. = 4000 atkv. Austur-Ísl. 150.000 kr. = 6000 atkvæði, Þannig mætt 250/450 = 5/9; 1. Vestur-Ísl. 100.000 kr.: 5/9 = 2.222 atkv. 2. V.-Ísl. 50.000 kr.: 5/9 = 1.111 atkv. 3. V.-Ísl. 50.000 kr.: 5/9 = 1.111 atkvæði. Það samtals = 4.444 atkv. + 10.000 atkv. = 14.444 atkv. alls.

Þegar hér er komið, hafa Vestur-Ísl. meira atkvæðamagn í félaginu en landssjóður og fer það hækkandi eftir því sem fundir eru betur sóttir af fulltrúum fyrir alíslenzkt hlutafé, svo sem sjá má af eftirfarandi dæmum.

5. dæmi :

Landssjóður 100.000 kr. = 4000 atkv. Austur-Ísl. 175.000 kr. = 7000 atkvæði. Þannig mætt 278/450 = 11/18; Vestur-Ísl. 200.000 kr.: 11/18 = 4.888 atkv.

Samtals 15.888 atkv.

6. dæmi :

Landssjóður 100.000 kr. = 4000 atkv. Austur-Ísl. 200.000 kr. = 8000 atkv. Þannig mætt 300/450 = 2/3; Vestur-Ísl. 200.000 kr.: 2/3 = 5.332 atkv.

Samtals 17.332 atkv.

7. dæmi :

Landasjóður 100.000 kr. = 4000 atkv. Austur-Ísl. 250.000 kr. = 10.000 atkv. Þannig mætt 35o/450 = 7/9; Vestur Ísl. 200.000 kr.: 7/9 = 6.223 atkv.

Samtals 20.222 atkvæði.

Þetta virðist nú nefndinni ekki vera hættulegt í sjálfu sér, því að atkvæði V.-Íslendinga vex ekki nema eftir því sem atkvæðamagn Austur-Íslendinga vex þannig, að til þess að þeir geti ráðið yfir 6,222 atkv., verðum við Austur-Íslendingar að hafa 10 þús. atkv., auk þeirra 4 þús. atkvæða, sem landssjóður á. Það ætti undir öllum kringumstæðum að vera hættulaust fyrir landssjóð, þótt fulltrúar V.-Ísl. hefði meira atkv.magn en hann, því að gera má ráð fyrir því, að hann eigi ætíð svo mikil ítök í hluthöfum hér á landi, að þótt einhverntíma yrði ágreiningur, þá væri honum innanhandar að láta þá sjá um það, að V.-Ísl. kæmi aldrei neinum rangindum fram, sem raunar er eigi ástæða til að ætla að þeir myndi vilja gera.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en eg vonast til þess, að háttv. deild fallist á þá skoðun nefndarinnar, að ekki sé ástæða til þess, að gera þá kröfu að svo stöddu, að sú breyting verði gerð á lögunum, að V.-Ísl. fái aldrei meira atkvæðamagn en landssjóður.