14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

3. mál, undanþága vegna siglingalaganna

Benedikt Sveinsson :

Mér þykir vænt um, að nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að takmarka ekki atkvæðamagn V.-Ísl., frekar en þegar hefir verið gjört. Þetta atriði var mikið rætt í vetur og töluverð misklíð um það um tíma. Stjórnin lét þá svo, sem hún væri hrædd um að þingið myndi taka hart á því, ef hún héldi ekki fast fram kröfu um atkv.rétt landssjóði til handa, helzt fyrir alt féð frá honum, 400 þús. kr., eða hefði að minsta kosti rétt til jafnmargra atkvæða, sem V.-Ísl. hefði alls, sem búist er við að leggi 200 þús. kr. í fyrirtækið. Eg sé nú ekki hvaða ástæðu þingið ætti að hafa til þess að óttast, að V.-Ísl. myndi misbrúka atkv.rétt sinn í félaginu, fremur en hverjir aðrir félagsmenn. Þeim hefir þó ekkert gengið annað til þess að styðja félagið en löngun til þess að gera landinu og þjóðinni gagn, því að fé sitt geta þeir sett á vöxtu þar vestra svo, að það sé alt eins arðvænlegt fyrir sjálfa þá. Eg sé því ekki annað réttara, en að þingið fallist á till. nefndarinnar, og mér virðist þessu fé, sem landssjóður leggur til, vera varið forsvaranlega, þó hann sé ekki látinn hafa meira atkv. magn, en sem svarar fyrir 100 þús. kr. hlutafé, því að þess ber að gæta, eins og háttv. frams.m. (E. A.) tók fram, að hitt féð, 300 þús. kr., er veitt með sérstöku skilyrði og í sérstökum tilgangi, þ. e. til strandferðanna. Það væri því ósanngjarnt, að landssjóður hefði einnig atkv.rétt fyrir þær 300 þús. kr. Auk þess hefir landssjóður þann forrétt, að hann einn út af fyrir sig nefnir einn mann í stjórn félagsins, og er það auðvitað ekki nema rétt og sanngjarnt, þar sem hann er svo stór hluthafi, en með því verður og að álíta, að fyllilega sé borgið þeim rétti hans, sem þingið getur gert kröfu til, án þess að landsstjórnin verði of rík í félaginu. Eg vona að háttv. deild finni ekki ástæðu til þess að breyta í neinu frá till. nefndarinnar.