14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

3. mál, undanþága vegna siglingalaganna

Ráðherra (H. H.) :

Það var misskilningur eða ranghermi, sem mér virtist háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) gefa í skyn, að ástæðan til þess, að stjórnin sló þennan varnagla, hefði verið hræðsla við það, að V.-Ísl. myndi fara illa með atkv. sín í félaginu. Það vissu allir, að ástæðan var ekki sú, heldur hin, að það þótti óviðkunnanlegt, að einn einstakur maður, er færi með atkvæði V.-Íslendinga á fundum, hefði eða gæti haft alt að því helmingi meira vald í félaginu, en landsstjórnin, þótt landssjóðurinn ætti helmingi meira fé í félaginu heldur en V.-Íslendingar samtals. Það var ákveðið í félagslögunum, að enginn einn maður mætti fara með fleiri en 500 atkvæði, og undantekning að eins gerð fyrir landssjóðinn og V.-Íslendinga. Þeir áttu að fá fult atkv.magn fyrir alt sitt fé, og fulltrúi þeirra einn geta beitt því öllu, en landsstjórnin ekki nema fjórðung atkvæðamagns fyrir landsins fé. Eg skil ekki, að neinum þurfi að þykja það undarlegt, að stjórninni dytti í hug, að alþingi kynni að þykja það á einhvern hátt varhugavert, að geðþótti eina manns gæti ráðið 8 þús. atkv., þegar landssjóður sjálfur ræður ekki nema 4 þús. atkv. fyrir helmingi meira hlutafé. Ef V.-Íslendingar hefði fleiri fulltrúa, þá væri öðru máli að gegna, því að tæplega væri ráð fyrir því gerandi, að þeir, fremur en við hér heima, væri sífelt allir nákvæmlega á sömu skoðun. Það var einungis þetta, sem stjórnin vildi gefa þinginu tækifæri til að athuga. Nú hefir nefndin ekkert fundið athugavert við það, og er þá ekkert frekara um það að fást.

Úr því að eg stóð upp á annað borð, skal eg geta þess, að það er ekki rétt, að landssjóður sé rétthærri en aðrir hluthafar fyrir það, þótt hann nefni einn mann í stjórn félagsins, því að um leið hefir hann afsalað sér rétti til þess að taka þátt í kosningu hinna mannanna í stjórninni. Ef hann tæki sama þátt og aðrir í kosningunni, eftir atkvæðamagni sínu, þá myndi hann ráða miklu meira en kosningu eins manns, sem ekki er nema lítið brot af félagsstjórninni. Réttur hans er því mikillega takmarkaður með þessu, en alls ekki aukin.