14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

3. mál, undanþága vegna siglingalaganna

Benedikt Sveinsson :

Hæstv. ráðh. þýðir ekki að þræta gegn því, að á stofnf. Eimskipafél. í vetur, krafðist landstjórnin atkv. fyrir 400000 kr., eða að minsta kosti jafnmikils atkvæðamagns, sem Vestur-Íslendingar fengi, og lá við að sú þverúð fældi Vestur-Íslendinga alveg frá hluttöku í fél. Hæstv. ráðherra var ekki á þeim fundi, svo að hann getur ekki um það borið, en landritari sagði þá, að það væri hart fyrir landssjóð, að fleygja frá sér 300 þús. kr., án þess að fá atkv.rétt fyrir svo mikið fé. Þetta var á opinberum fundi, svo að því er ekki hægt að hnekkja, að deilan var hörðust út af þessu, þó að hitt hafi líka kunnað að vaka fyrir stjórninni, er hún vildi takmarka atkv.magn V.-Ísl., að sporna við því, að einn maður gæti fengið mjög mikið vald í félaginu.