06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

4. mál, mæling og skrásetning lóða

Flutn.m. (Sveinn Björnsson):

Þetta frv. er þannig til komið, að málið hefir legið fyrir bæjarstjórn í 2 ár, og nú loks verið samþykt af henni í þessari mynd, og flytjum við það hér, þingmenn Reykjavíkur, eftir ósk bæjarstjórnarinnar.

Það er kunnugt öllum Reykvíkingum, og jafnvel fleirum, að á því hefir verið hin mesta óregla, hvernig lóðamörk hafa verið ákveðin hér í bænum. Enginn uppdráttur hefir verið til, er sýndi þau greinilega og engin svo nákvæm skrá, að á henni hafi mátt byggja sem fulltraustum grundvelli, t. d. er ákveða skal lóðargjöld, og hefir þó einn af tekjuliðum bæjarins verið bygður á lóðunum nú um 30–40 ár. Það hefir oft staðið til, að uppdráttur yrði gerður af lóðum og löndum bæjarins, en aldrei orðið

neitt úr því. — Í fyrra kom það enn til orða, að gera þenna uppdrátt, og fundu menn þá til þess, að jafnframt bar brýna nauðsyn til þess, að sett yrði glögg merki milli lóða. Bæði er það, að verðmæti lóðanna veg með ári hverju, og svo hafa menn það fyrir satt, að bærinn sjálfur, sem er stór lóða-eigandi, hafi orðið, eða geti orðið fyrir skaða á þann hátt, að menn gangi á það lag, að færa út takmörk sinna lóða, inn á lóðir hans, meðan ekki er gert við þessu. Alt þetta gerir það bráðnauðsynlegt, að fá þetta mál tekið fyrir, og hugsunin er sú, að allur bærinn verði mældur, og gerður af honum nákvæmur uppdráttur, og ef þrætur verða um takmörk lóðanna, þá fáist um þær fljótur úrskurður, þó svo, að mönnum gefist ætíð kostur á því að leita til dómstólanna.

Þess ber og að gæta, að þetta mál verður enn nauðsynlegra vegna þess, að það má búast við því, að þess verði ekki langt að bíða, að bærinn verði neyddur til þess, af fjárhagsástæðum, að snúa sér frekar en áður að fasteignum, sérstaklega lóðunum, sem tekjustofni. Hinsvegar vildi bæjarstjórnin gjarna að svo væri frá lögunum gengið, að hún væri ekki skyld til þess, að láta þau koma í framkvæmd, fyrr en hún álítur að fjárhagurinn leyfi það.

Eins og eg hefi tekið fram hefir þetta frumv. verið 2 ár til meðferðar hjá bæjarstjórninni, verið athugað þar í nefnd og samþ. af henni í þessu formi. Eg vænti því góðra undirtekta undir það, sérstaklega með tilliti til undirbúningsins, sem það hefir fengið og svo varðar það bæinn svo sérstaklega, að eðlilegt væri að fulltrúar hans fengi að ráða sem mestu um það.