03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

120. mál, stjórnarskrá

Ráðherra (H. H.) :

Það var víst öllum ljóst, hver var í raun og veru tilgangur alþingis með því að taka þetta ákvæði út úr stjórnarskránni á þann hátt, sem gert var. Eg skal og leyfa mér að minna á ummæli mín um það efni í ríkisráðinu, áður en konungsúrskurðurinn var út gefinn. Þau hljóða svo, samkvæmt skýrslunni, sem birt var hér í Lögbirtingablaðinu :

». . . Alþingi hefir eigi að síður talið sér skylt að standa fast við það, að í stjórnarskránni um sérmál Íslands eigi ekki að standa ákvæði, sem gæti misskilist á þá leið, að það vald, er samkvæmt stjórnarskránni liggur eingöngu undir konung og alþingi, eða ráðherra Íslands framkvæmir fyrir konunga hönd, sé þó jafnframt lagt undir dönsk ríkisvöld.

Það ætti að vera auðsætt mál, að þegar konungur eftir þessa skýringu felst á úrfellingu ákvæðisins úr stjórnarskránni, þá staðfestir hann skilning alþingis, og það, að úrskurðurinn verður útgefinn með undirskrift Íslandsráðherra eins ásamt konunginum, slær því föstu, að uppburður íslenzkra mála sé íslenzkt sérmál, sem ekki hefir verið viðurkent út á við fyrr, þótt vér höfum litið svo á og haldið því fram.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gekk út frá því, að tilætlunin væri að taka upp í hinn væntanlega konungsúrskurð það ákvæði, að uppburði málanna verði eigi breytt, nema til komi ný sambandslög. Eg veit ekki, hvaðan hann hefir það. Þetta er ákvörðun, sem Hans hátign konungurinn er þegar búinn aðtaka og birta og ekki þarf að endurtaka. Og mér er spurn: Hvernig getum vér varnað konungi að einsetja sér þetta, eða látið hann taka það aftur? Eða hvernig getum vér bannað honum sem konungi Danmerkur að auglýsa þennan ásetning sinn í Danmörku? Ég vil spyrja hinn háttv. þm.: Hvaða veg höfum vér til þess að varna honum þess, þótt hann vildi auglýsa þar með aðstoð danskra ráðherra sinna hvern einasta íslenzkan konungsúrskurð, er honum virðist vita að Danmörku á einhvern hátt? Vér getum eigi ráðið við það.

Því verður hann að ráða sjálfur. Spurningin var hér einungis sú, hvort það ætti að láta þetta alt vera á huldu og láta ekki Íslendinga vita neitt um þennan ásetning konungs, að breyta ekki úrskurðinum um uppburð málanna, fyrr en eftir á, þegar búið væri að samþykkja frumvarpið aftur, eða gera þetta strax heyrinkunnugt. Eg fyrir mitt leyti áleit réttara að láta þá vita þegar fyrirfram alt um skilyrði konungs fyrir staðfesting stjórnarakrárfrumvarpsins og þess vegna var athugasemd um þetta tekin upp í opna bréfið um nýjar kosningar. (Bjarni Jónsson: Hvers vegna undirskrifaði ráðherra úrskurðinn?). Úrskurðurinn er ekki útgefinn enn, en það heyrir undir verkahring ráðherra Íslands að nafnsetja með konungi innköllun til nýrra kosninga og það, er nauðsynlegt þykir að birta Íslendingum af konungs hálfu. Annara finn eg ekki ástæðu til að svara innskotssetningum eða aðfinslum háttv. þingmanns frekara en eg hefi gert.

Eg heyrði, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) bar kvíðboga fyrir því, að með takmörkun þeirri, er um ræðir í hinu kgl. opna bréfi 20. okt. 1913 mætti ef til vill segja, að mál vor sé á einhvern hátt lögð á vald ríkisþingsins danska, af því að ný Sambandslög geti ekki orðið til án Samþykkis ríkisþingsins. En það mætti alveg eins vel segja, að í konunglega opna bréfinu Sé allar breytingar á sambandinu milli landanna lagðar á vald alþingis Íslendinga. Hingað til hefir, eins og háttvirtum þingheimi er kunnugt, því verið haldið fram af ýmsum dönskum stjórnmálamönnum, að eins og ríkisþingið eitt ásamt konungi hefði sett stöðulögin, eins gæti danskt löggjafarvald aftur breytt þeim, og aldrei hefir fengist neitt fast loforð um það, að samþykki alþingis skuli vera skilyrði fyrir breyting á stöðulögunum. En í þessu konunglega opna bréfi er það beint sagt, að ný lög um ríkisréttarsambandið milli Danmerkur og Íslands verði ekki staðfest af konungi nema bæði alþingi og ríkisþingið hafi samþykt þau. Það hefði einhvern tíma ekki þótt lítið varið í þess konar yfirlýsingu. Ummæli konungs í opna bréfinu sýna að minsta kosti þann vilja hans og ásetning, að þó að ríkisþingið t. d, vildi setja þau lög, að Íslandsráðherrann, er eingöngu fer með sérmálin, mætti ekki koma í ríkisráð Dana og heyra, hvað þar fer fram, þá mundi konungur ekki staðfesta slík lög án samþykkis alþingis Íslendinga.

Að hér geti verið um nokkurn samning að ræða gagnvart ríkisþinginu, get eg ekki séð né skilið. Hér er um ekkert annað að ræða, en venjulega íslenzka stjórnarráðstöfun. Konungur hefir auðvitað leyfi til þess að auglýsa hana, hvernig sem hann vill, og eg hefi gert skyldu mína, að láta Íslendinga þegar í stað vita, hvers vænta mátti.