14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

5. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Framsögum. (Sveinn Björnsson):

Eg hefi ekki miklu við það að bæta, sem eg sagði við 1. umr. þessa máls. Eins og eg sagði þá, á þetta frv. að tryggja það, að bæjarstjórnin geti afgreitt fjárhagsáætlun bæjarins árlega á eðlilegan hátt. Að hún geti látið árleg útgjöld bæjarins greiðast af árlegum tekjum hans, en eigi af lánsfé, nema til þess sé beinlínis ætlast. Þetta er mikilsvert atriði fyrir fjárhag bæjarins, og nefndin, sem skipuð var til að athuga málið, hefir nú komist að þeirri niðurstöðu, að ekkert sé það, sem mæli á móti þessu sérstaklega. Hún leggur að eins til, að gera eina brt. á frv., sem ekki er nema orðabreyting, þótti fara betur á því þannig.

Þar sem því ekki er hér um neina efnisbreytingu að ræða, býst eg ekki við því, að neinn háttv. þm. hafi neitt við það að athuga, þótt þetta frv. verði samþ. og vænti eg þess, að háttv. deild leyfi því fram að ganga, þannig breyttu.