06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

10. mál, afnám fátækratíundar

Framsögum. minni hl. (Jóhann Eyjólfsson):

Eg hefi áður hér í hv. deild þózt sýna fram á, með ljósum orðum, hver ástæða væri til að telja það réttmætt að afnema fátækratíundina. Þegar eg flutti þetta frumv. hélt eg satt að segja, að það mundi verða létt verk að koma þessu í framkvæmd. Í fyrsta lagi treysti eg því vel, að réttlætistilfinning háttv. þingmanna væri á svo háu stigi, að þeir hlyti að sjá, hversu ranglátt gjald þetta væri, og í öðru lagi treysti eg því, að þekkingin væri á svo háu stigi í þinginu, að menn mundu undir eins sjá að að þessu væri hið mesta hagræði, og að það mundi spara bæði tíma og peninga.

Það má vel vera að þeim, sem hraðvirkari eru en eg, þyki það ekki mikil vinna, að reikna út tíundina, en eg veit, að eg er lengi að því og svo mun vera um fleiri. Það getur verið að háttv. framsögum. meiri hl. (J. J.) Sé svo hraðvirkur, að honum sé þetta fljótunnið starf, en eg hefi samt sem áður heyrt marga merka menn halda því fram, að það væri mikill tímasparnaður ef þessi tíund væri afnumin, ekki einungis vegna vinnunnar við skýrslusamninginn í fyrstu, heldur líka vegna allra endurskoðananna.

Það eru þá þessir tveir aðalþættir í málinu, sem eg held mér fast við, fyrst og fremst, að fátækratíundinni eigi að hrinda fyrir það, að hún er ranglátt gjald, og síðan að það væri mikill tímasparnaður, ef hún væri úr lögum numin.

Það, sem háttv. meiri hluti hefir á móti málinu, er einkennilega léttvægt, hvort sem það nú dugir þess til að hafa áhrif á úrskurð háttv. deildar eða ekki. Það er aðallega þrent, sem háttv. meiri hluti hefir fram að bera í málinu. Í fyrsta lagi, að því liggi ekkert á, í öðru lagi að réttara sé að vísa því til stjórnarinnar og láta það verða samferða tekjuakattslögunum, og í þriðja lagi að fastar tekjur sveitasjóðanna skerðist of tilfinnanlega ef tíundin verður úr lögum numin.

Þegar eg lít á fyrsta atriðið, þá virðist mér, að eg hafi heyrt alt of mikið af þessum röddum síðan eg kom hingað, að alt megi draga til næsta þings. Mér dettur í hug það sem haft er eftir gömlum karli í Norðurárdal. Alt af þegar hann var beðinn að gera eitthvað, var viðkvæðið: »Þetta má nú eins vel gera á morgun».

Annað atriðið er það, að vísa málinu til stjórnarinnar. Það er líka hér hátt á baugi. Og því neita eg ekki, að á sumum sviðum getur það verið réttmæt aðferð, einkum þegar um þau mál er að ræða, sem einhverrar sérfræði þarf við, eða eru svo flókin, að mikið og nákvæmlega þarf um þau að hugsa. En það nær ekki til þessa máls. Það er svo einfalt og óbrotið, að hverju barni sem komið er yfir fermingaraldur er ekki ofvaxið að skilja það. Og það þykir mér einkennilegast, þegar þeir menn, sem hafa það fyrir markmið að skamma stjórnina fyrir alt sem hún gerir, vilja fela henni alla skapaða hluti, eða sem allra flest til framkvæmda.

Þriðja atriðið, að fastar tekjur sveitarsjóðanna skerðist of mikið við það að fátækratíundin er afnumið, á að vera veigamest. Og hefi eg þó aldrei séð rýrari ástæðu. Hér er hvorki verið að auka tekjur sveitasjóðanna né heldur verið að minka þær. Þær eru einungis færðar til. Háttv. meiri hluti lætur sér farast eina og karlinum, sem sat á klárnum, en batt pokann á bakið á sjálfum sér og sagði: »Ekki ber klárinn það sem eg ber«. Þetta gjald liggur á okkar eigin hrygg eftir sem áður. Það er að eina tekið úr einum vasanum og látið í hinn.

Þetta er svo einfalt mál, að mig furðar stórlega, að allir skuli ekki skilja það. Það væri náttúrlega gott og blessað ef hægt væri að byggja upp þægilegan og góðan fastan tekjulið fyrir sveitasjóðina í staðinn fyrir þessa tíund. En fyrir því er ekki spilt, þó að þetta frv. verði samþykt. Ef löggjafarvaldinu dettur eitthvað í hug í því efni, þá er jafnhægt að koma því í framkvæmd eftir sem áður. En það, sem vakir fyrir mér er það, að langt geti liðið þangað til gott ráð finst í þessu efni og þess vegna tel eg ekki rétt að láta þetta sjálfsagða réttlætis- og sanngirnismál bíða eftir því, ef til vill um langan óákveðinn tíma.

Meðan eg heyri ekki aðrar röksemdir fram bornar á móti málinu, finn eg ekki ástæðu til að segja meira. En að endingu vil eg beina þeirri ósk til hv. forseta, að þegar gengið verður til atkvæða um frv., þá verði það gert að viðhöfðu nafnakalli.