06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

10. mál, afnám fátækratíundar

Framsögum. meiri hl. (Jón Jónsson):

Eg hefi lítið að segja viðvíkjandi ræðu háttv. minni hluta (J. E.), því að það var svo sem ekkert á henni að græða. Hann sagði ekkert það, sem hann hefir ekki áður tekið fram í nefndaráliti sínu. Hann heldur enn fast við það, að mikil nauðsyn sé að málið gangi sem fyrst fram. Vona eg, að meiri hluti háttv. deildar sé þar á öðru máli. Mér þykir það dálítið skrítið, ef það skiftir ekki neinu máli, hvort sveitasjóðirnir hafa nokkrar fastar tekjur eða ekki. Það er þó alment álitið, þegar um tollmál eða skattamál er að ræða, að nokkra nauðsyn beri til að landsjóður hafi einhverjar fastar tekjur. En því er eins farið um sveitasjóðina. Það er miklu tryggara og öruggara, að þeir hafi fastar tekjur og margfalt auðveldara, að ná þeim tekjum inn á hverju ári. Það er miklu meiri vandi, að ná inn háum gjöldum með niðurjöfnun, heldur en ef nokkur hluti þeirra er ákveðinn með lögum: Víðast er mikil óánægja út af sveitarútsvörunum og svo mun það vera á Mýrunum sem annarsstaðar.

Háttv. minni hluti (J. E.) segir, að með þessari breytingu færist tekjurnar einungis til. Það er mikið rétt, það má jafna eins miklu niður og fátækratíundinni nemur. En þá er á það að líta, hvort heppilegt er að gefa hreppsnefndunum ótakmarkað vald til að skipa mönnum að borga svo og svo mikið sem þeim sýnist. Trúað gæti eg því, að það yrði óvinsælt. Hreppsnefndirnar eru ekki ávalt óhlutdrægar, og þess vegna gæti hæglega farið svo, að gjaldið kæmi enn ranglegar niður en ella. Hátt. minni hl. (J. E.) sagði að við hugsuðum líkt og karlinn, sem sat á klárnum, batt poka á bakið á sjálfum sér, og hélt að klárinn bæri ekki það sem hann bæri. Þetta má einmitt heimfæra upp á sjálfan hann, þar sem honum getur ekki skilist, að í sama stað komi niður, þó að gjöldin haldi áfram að vera föst. Hann gerir þar úlfalda úr mýflugu. Hitt, sem hann sagði, að þó að þetta frv. yrði að lögum, þá spilti það ekki fyrir því, að föst gjöld fyrir sveitarsjóðina yrði síðar ákveðin, getur verið gott og gilt. En mér getur ekki annað virst, en að það sé fálm af löggjafarvaldinu að fara að kippa þessu burtu, áður en það hefir hugsað sig um, hvað í staðinn á að koma. Því að eina ber að breyta því sem er, að vissa sé fyrir, að breytingin sé til bóta. Nú er það álit meiri hl. að þessi breyting sé til hins verra, þó að hann hins vegar játi, að gjaldið, eins og það er, komi ekki alls kostar réttlátlega niður.