07.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

10. mál, afnám fátækratíundar

Eggert Pálsson :

Háttv. frams.m. minni hlutans (J. E.) og háttv. þm. (S Þing. (P. J.) hafa verið að tala um, að meiri hlutinn vildi vísa þessu máli til stjórnarinnar. Eg sé ekkert um það í nefndaráliti meiri hlutans, og hin rökstudda dagskrá gerir heldur ekki ráð fyrir neinu slíku. Hún gerir aðeins ráð fyrir, að málið verði tekið fyrir á næsta eða næstu þingum. Þingið getur sjálft átt frumatkvæði að því, að taka málið upp um leið og sveitarsjóðunum væri trygðar aðrar og meiri fastar tekjur, og þess vegna á það ekki við að segja, að meiri hlutinn vilji vísa málinu til stjórnarinnar, sem þó oft og tíðum fái útskit fyrir störf sín, eins og háttv. þingmenn komust að orði.

Hvað þetta frv. snertir, þá er það ekkert stórmál, og eg mun heldur ekki gera það að neinu kappsmáli. Aðeins mun eg hallast að því í þessu efni, sem öðru, sem eg tel réttlátt og sanngjarnt vera. Það hefir verið sagt, að þetta gjald væri svo lítið, að það munaði ekkert um það. Það kann nú að vera satt, að lítið muni um það, en það er ekki satt, að það muni ekkert um það. En aðalatriðið er frá mínu sjónarmiði stefnan, sem í því felst.

Eins og allir vita, var á síðasta þingi dembt á sveitasjóðina 2–8 útgjaldaliðum, sem munar um, og þegar útgjaldabyrðar sveitasjóðanna eru þannig að aukast, getur það ekki náð neinni átt, að jafnframt sé verið að svifta þá þeim litlu föstu tekjum, sem þeir hafa. Ef hér væri farið fram á að afnema fátækratíundina, en útvega sveitasjóðunum eitthvað í staðinn, þá væri öðru máli að gegna. En hér er ekki farið fram á það; hér er bara verið, eins og átt hefir sér stað á undanförnum þingum, að gera sveitarsjóðunum sem erfiðast fyrir og það algerlega að þarflausu; og get eg því ekki með neinu móti fylgt þeirri stefnu. Hér er um »princip«mál að ræða, þó lítið sé, og þess vegna hafi eg lagst á móti því.

Í öðru lagi hefir verið sagt, að gjaldið sé ranglátt gjald. Sé svo, þá er sannarlega ekki um stórt ranglæti að ræða og væri vel ef það ætti sér ekki stað stærra í öðrum efnum. Það er þó ekki nema um 2–3 kr. að ræða á flesta búendur, svo varla getur í því falist mikið ranglæti. Eða hafa menn nokkra tryggingu fyrir því, að réttlætið yrði meira, þó að þetta kæmist á? Eg hefi fyrir mitt leyti enga tryggingu fyrir því. Eg álít þetta gjald alls ekki svo ranglátt, að orð sé á gerandi, en þar á móti eru engin gjöld eins ranglát eins og einmitt aukaútsvörin. (Bjarni Jónsson: Það er rangt; þau eru lang-réttlátustu gjöldin). Það er ekki rangt. Ef aukaútsvörin eru réttlátust gjöld, því er þá ekki öllum gjöldum jafnað þannig niður? Hvers vegna er þá ekki landssj. t. d. aflað tekna á þann hátt. Mögulegt virðist það þó vera, ef aðferðin væri hin réttlátasta, að þingið jafnaði þörfunum niður á sýslu- og bæjarfélögin, sýslunefndin svo á hreppasjóðina og hreppsnefndin á einstaklingana. En að sú aðferð er ekki viðhöfð, stafar vitanlega af því þegar »praktisera« ætti hann í stórum stíl, hversu afar ranglát hún er. En þegar aðeins er um þarfir hrepps- og sýslufélags að ræða, þá hirðir þingið ekkert um, þótt ranglætið eigi sér stað. Það býður bara hreppssjóðunum að borga en hirðir ekkert um að afla þeim skynsamlegra og réttlátra tekna. Og þessarar sömu stefnu þykist eg kenna í frv. þessu og þess vegna er eg aðallega á móti því.

Þá hefir enn verið talað um, að gjaldið beri að afnema, af því að útreikningur á því sé svo erfiður. En þegar þess er gætt, að þetta hefir verið »praktiserað« í fleiri hundruð ára, og fyrr á tímum vóru langt um færri menn færir um útreikninginginn heldur en nú, þegar slíkir menn eru á hverju strái, þá held eg að sú ástæðan hljóti að teljast lítils virði.

Þá gat háttv. þm. S. Þing. (P. J.) þess, að það væri regla þar sem hann þekti til, að þetta gjald hefði engin áhrif á niðurjöfnun aukaútsvara, t. d. sagði hann, að ef fátækur maður byggi á stórri jörð, þá gætti ekki sveitarútsvars hans. Það er augsýnilegt, að ef hreppsnefndir fylgja alment þessari reglu, þá er engin þörf á að afnema fátækratíundina með tilliti til þess réttlætið, sem fyrir honum vakir.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Eg geri það ekki að neinu kappsmáli, en þarf náttúrlega ekki að taka það fram, á hvora hliðina eg hallast með mínu atkvæði. Eg fæ ekki betur séð, en að það sé rétt stefna, sem meiri hlutinn heldur fram, og það munu fleiri kannast við, að niðurjöfnun gjalda skapar oft óánægju innan hreppsfélaga, miklu meira en hinir föstu skattar.