06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

10. mál, afnám fátækratíundar

Þorleifur Jónsson:

Eg skal leyfa mér með fáum orðum að láta í ljós skoðun mína á þessu máli. Þetta er ekki svo stórt mál, að það þurfi að gera að neinu kappsmáli, en úr því að fram er komið frv. um að afnema fátækratíundina, þá skal eg lýsa því yfir, að eg er því meðmæltur. Auðvitað hefir hún lengi verið í lögum, en sem gjaldstofn fyrir sveitafélögin er hún sama sem núll. Nú orðið er ekkert tillit tekið til tíundarinnar við niðurjöfnun auka útsvara, og hún alla ekki aðgætt fyrr en eftir að búið er að jafna niður. Þegar hreppsnefndin kemur saman á haustin, byrjar hún á því að athuga, hve miklar tekjur hreppurinn þurfi, til að standast útgjöldin. Síðan er þeim tekjum jafnað niður á hreppsbúa eftir efnum og ástæðum með aukaútsvörum. Þá fyrst, þegar því er lokið, er tíundin reiknuð út. Eg get þess vegna ekki séð, að aukaútsvörin yrði neitt meiri, þótt tíundin yrði afnumin. En þótt miðað væri nú við tíundina, þá er mikið spursmál, hve réttlát hún er. Það er aðgætandi, að það er mikill munur, hvort goldið er af leigufé eða skuldlausri eign, Það er ekki réttlátt, að gjaldið sé hið sama, hvort sem eignin, sem af er goldið, er skuldlaus eða ekki.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) sagði, að þetta væri gert til að pína sveitasjóðina, sem allra mest. Mér sýnist það muni verða líkt og áður, aukaútsvörin söm, að minsta kosti þar sem öllu er jafnað niður sem aukaútavörum. Það væri að vísu gott fyrir sveitastjórnirnar, að fá einhvern góðan fastan skattstofn, en í því efni er engu slept þó að tíundin falli niður, því að hún er ekki neinn skattatofn, sem um munar.

Eg held, að það væri alls ekki óréttlátt, að þetta frumvarp næði fram að ganga, og býst við, að landamenn myndi ekki una því illa. Það léttir starfi af hreppsnefndunum með útreikning á þessum tíundum eftir á, og þó ekki liggi í því mikil vinna, þá hafa hreppsnefndirnar svo mörgum störfum að gegna og illa launuðum, að ekki er úr vegi að létta af þeim störfum, sem hafa enga þýðingu í sjálfu sér.

Eg verð því að taka í þann strenginn, að þetta frumvarp fái fram að ganga.