06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

10. mál, afnám fátækratíundar

Einar Arnórsson:

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) hefir tekið af mér ómakið með að svara sumu í ræðu háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.). En hann svaraði ekki öllu, og því stend eg upp.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) byrjaði ræðu sína á því, að hann hallaðist að því í þessu máli, sem sanngjarnt væri og réttlátt, og því væri hann á móti þessu frumvarpi. En þetta er mikill misskilningur hjá honum. Það er nú búið að sanna, að tíundin sé ranglátt gjald, og þarf ekki annað en að lesa 12. gr. laga 10. júlí 1878, samanborna við þær breytingar, sem síðan hafa orðið á tíundarlöggjöf vorri, til að sannfærast um það. Það er ranglátt, að um leið og efnamenn losna við gjöld, eru fátæklingar látnir bera tiltölulega þyngri byrðar en áður. Enn fremur sagði hann, að með afnámi fátækratíundarinnar væri sveitasjóðirnir sviftir tekjustofni. Þetta er heldur ekki rétt. Það væri rétt, ef utanhreppsmenn gyldi í sjóðina. Hér er að eins um það að ræða, að láta gjaldið koma réttlátara niður en nú er, og að létta óþarfa vinnu af hreppstjórnum.

Eg sýndi fram á það, að fátækratíundin skifti engu máli sem tekjur fyrir sveitasjóðina, og nú hefi eg fengið sönnun þess frá manni, sem þeim málum er vel kunnugur, háttv. þm. A. Sk. (Þ. J.). Hann sagði, að fátækratíundin væri alls ekki tekin til greina við niðurjöfnun aukaútsvara, heldur að eins af formlegum ástæðum athuguð á eftir. Við skulum nú t. d. taka hreppinn, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. P.) er búsettur í. Þar hafa árstekjurnar orðið þetta ár (1909–10) 4085 kr. En á sama tíma var tíundin 198 kr. Eg gæti nú trúað því, að honum yrði ekki skotaskuld úr að jafna þessum 198 kr. þannig á hreppsbúa, að þeir mætti vel við una. Nú segir hann, að aukaútsvörin sé fjarskalega ranglát, en þau eru þó, eftir því sem ráða má af orðum hans, það skárri en tíundin, þótt þau valdi stundum óánægju, að með þeim er hægt að minka dálítið ranglætið af tíundinni. Aukaútsvörin eru í eðli sínu hreint ekki ranglát. Það stendur í lögunum, að við niðurjöfnun þeirra eigi að taka til greina efni og ástæður. Ef niðurjöfnunarnefnd vinnur samvizkusamlega, er ekki víst að hægt sé að finna réttlátara gjald.