06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

10. mál, afnám fátækratíundar

Eggert Pálsson:

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) gerði sér allmikla fyrirhöfn til þess að hrekja ræðu mína. Enda þótt engum gæti dulist það, að hann sneri út úr orðum mínum, þá sést það þó á því, hve ítarlegar tilraunir hann gerði, að honum hefir þótt hún hafa við talsverð rök að styðjast, annars hefði hann ekki farið svo langt og nákvæmlega út í hana, sem hann gerði. Hann hermdi þau orð mín, að eg hefði í þessu máli hallast á þá sveif, sem réttari væri — og átti eg þá auðvitað við það, sem eg áleit réttast, sem sé, að svifta ekki sveitasjóðina þessum litlu föstu tekjum, sem fátækratíundin er, á meðan annað væri ekki sett í hennar stað.

Það taldi og telur háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) aftur á móti rangt og ósanngjarnt, þótt honum tækist ekki fremur nú en áður að finna þeim orðum sínum stað. Eg hygg því, að rök vor andstæðinga þessa frumv. hafi verið að minsta kosti jafnskýr og góð og hans og hans skoðanabræðra í þessum efnum, svo að hann þurfti ekki að setjast á hinn háa hest og tala um vantandi rök hjá mér.

Hann sagði, að hér væri um það lítilræði að ræða, að ekkert gerði til þótt frumvarpið yrði samþykt. Þetta virðist mér fremur veigalítil rök, því að með sama rétti mætti þá t. d. segja, að afnema bæri fasteigna og lausafjárskattinn til landssjóðs, sem er jafnhverfandi lítil tekjugrein fyrir landssjóðinn, samanborið við hana tekjur og útgjöld, sem tíundin er fyrir hreppasjóðina. En það hefir mér vitanlega engum komið til hugar, ekki einu sinni háttv. þingmanni, nema með því móti, að landssjóði yrði aflað annarra fastra tekna í staðinn, er ekki væri minni heldur meiri en fasteignar og lausafjárskattarinn nú er.

Háttv. þingmaður gat þess ennfremur, að í Fljótshlíð mundi tíundin ekki nema meira en um 200 kr., sem ekki væri erfitt að jafna niður með aukaútsvörum. En það er mesti misskilningur hjá hv. þingmanni, ef hann hyggur, að á sama standi, hvort niðurjöfnunargjald eins hreppsfélags veg eða minkar um 200 kr. Og sýnir að eins, að hann hefir ekki átt sæti í hreppsnefnd hjá fátæku hreppsfélagi og tekið þátt í niðurjöfnun aukaútsvaranna. En sem kunnugur maður því, hvernig hagar til í sveitum, get eg fullvissað háttv. þingmann um, að hreppsnefndum alment — og svo er hreppsnefndinni í Fljótshlíðarhreppi háttað — er ekki sama um það, hvort þær eiga að jafna niður 200 kr. meira eða minna á gjaldendur hreppsins. Og þær finna máske allra manna bezt til þess — sé þær á annað borð samvizkusamar — hversu óvinsælt og óheppilegt fyrirkomulag niðurjöfnunargjaldið er.

Annars er mér þetta, eins og eg hefi tekið fram, ekki kappsmál, en eg tel það að eins óheppilegt að svifta hreppssjóði þeim föstum tekjum, án þess að nokkuð sé sett í staðinn — jafnvel þótt ekki sé um meiri tekjur að ræða en fátækratíundin er. Það er að eins stefnan, sem í þessu litla máli kemur fram, sem fyrir mér vakir og ekki annað.