06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

10. mál, afnám fátækratíundar

Framsögum. meiri hl. (Jón Jónsson):

Eg hafði búist við því, að háttv. þm. Mýr. (J. Eyj.) mundi standa einn uppi í þessu máli, en það er nú öðru nær.

Eg skil það ekki, hve mikið kappamál honum er að hamra þessu frumv. í gegn á þessu þingi, þar sem hann þó hefir kannast við, að þetta sé ekkert stórvægilegt mál. Því má það þá ekki bíða til næsta þings? Það ætti ekki að skifta miklu máli, hvort tíundin er afnumin árinu fyrr eða síðar. Það sem máli skiftir er það, að ekki sé kipt burtu tekjustofni, án þess að nýjar tekjur komi í staðinn. Og þar sem allar líkur eru til þess, að næsta þing taki skattamál landsina fyrir, þá finst mér kapp hv. þm. óeðlilegt.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók í sama streng og þingm. Mýr. (J. E.). Hann kvað oss vilja halda í tíundina vegna þess að hún væri forngripur, en það er ekki rétt. Eg gef ekkert meira fyrir þetta, þótt það sé gamalt, en eg vil ekki afnema lögin, nema það sé af viti gert.

Það er rétt hjá háttv. 2. þm. Árn., að fátækratíundin er lítill tekjuauki, en þótt svo sé, þá er ekki ástæða til að afnema hana fyrir það. Það eru fremur veigalítil mótmæli móti okkar máli. Þess ber og að gæta, að meðan menn hafa ekki skýrslu um eignir manna, þá er gott að hafa tíundina til hliðsjónar, enda líta hreppsnefndir oft yfir tíundarskýrslur seinasta árs og hafa þær til

aðstoðar við niðurjöfnun sveitarútsvara. Því er nú einu sinni svo farið, að menn fara oft dult með ástæður sínar, skýra ekki frá innieignum sínum, svo að hreppsnefndirnar verða oft að fara eftir ágizkunum. Eins er það með skuldirnar — menn skýra heldur ekki frá þeim, nema helzt þegar kærumál risa. Þetta er afar óheppilegt og væri ekki vanþörf á að fá ný lög í þessu efni, líkt og milliþinganefndin 1907 stakk upp á. Mætti tíundin vissulega haldast þangað til lög í þá átt yrði samþykt.

Eg er hissa á því, að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir lýst yfir því, að hann ætli að styðja mál háttv. þm. Mýr. Eg hélt sem sé að það mundi algerlega stríða móti hans »principi«.

En sem sagt, aðalástæða mín til þess að leggjast á móti þessu frumv. er sú, að eg álít rangt að afnema tíundina fyrr en samþykt eru ný lög í staðinn um fastar tekjur sveitarsjóða.