06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

10. mál, afnám fátækratíundar

Einar Jónsson :

Menn hafa nú talað talavert mikið um tíundina yfir höfuð og hafa andmælendur frumvarpsins aðallega borið það fyrir sig, hve heppileg tíundin sé til þess að skapa fastar tekjur. Þetta er ekki rétt. Tíundin er ranglátur tekjustofn, vegna þess að hún er ekki einhlít sönnun fyrir efnum og ástæðum manna, heldur segir til höfðatölunnar og nafns þess, sem tíundað er, hvort framteljandi getur talið það sína eign eða eigi.

Eg trúi ekki öðru en menn hafi tekið eftir því, að fátækur fjölskyldumaður hefir oft meiri tíund en einhleypur ríkur maður — og hvaða sanngirni er í því, að tíundin sé í því tilfelli höfð sem fastur gjaldstofn fyrir fátækraútsvörum og hreppsgjöldum yfir höfuð?

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) talaði um það, að ekki mætti afnema tíundina, vegna þess, að nauðsynlegt væri fyrir hreppsnefndir að hafa tíundarskýrsluna til hliðajónar við niðurjöfnun. En þar er tíundin slæmur leiðarvísir. Hún gefur engar upplýsingar um hinn sanna efnahag manna. Mér er líka kunnugt um það, þar sem eg þekki til, að þar er ekki lagt á eftir tíundunum, heldur eftir efnum manna og ástæðum, vegna þess að hreppsnefndir álíta þann máta réttari. Hitt er annað mál, að hægt er að misbrúka þetta í þessu efni. Og ef svo er, þá er rétt að afnema lögin.

Af framangreindum ástæðum verð eg þessu frumvarpi fylgjandi og greiði því atkvæði mitt.