06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

10. mál, afnám fátækratíundar

Framsögum. minni hl. (Jóh Eyjólfsson):

Það er að eins stutt athugasemd, út af orðum háttv. 2. þm. Rang. (E. P.). Hann sagði, að sama máli gegndi um lausafjárskattinn og fasteignaskattinn til landssjóðs og tíundina — það væri jafnrétt að afnema hann. Þetta er á tvennan hátt öfugt. Í fyrsta lagi er fasteigna- og lausafjárskatturinn til landssjóðs lagður jafnhátt á fátæka og ríka eftir efnahlutföllum, og í öðru lagi er sá skattur goldinn til landssjóðs, og þar stendur hann sem sérstæður skattur út af fyrir sig á sérstökum mönnum, og hefir engin áhrif á hækkun eða lækkun á öðru gjaldi, svo sem fátækratíundin hefir á aukaútsvörin.

Þá sagði háttv. þm. (E. P.) að hans hrepp mundi muna um þær 200 kr, sem tíundin nemur þar, ef hún væri afnumin. Eg skil ekki, hvernig háttv. þm. getur sagt slíkt. Það er eins og að honum finnist að hreppsmenn myndi tapa á þessu 200 kr., en hér tapast ekkert, þar sem hreppurinn einmitt fær þá sömu upphæð aftur, en sú ein breyting verður á, að henni verður jafnað sanngjarnlegar niður á gjaldendur — farið eftir efnum og ástæðum, en ekki eftir höfðatölu. Ef háttv. þingmaður ætti að

borga 100 kr. til sveitarsjóðs, þá hygg eg að honum myndi verða álíka erfitt að greiða gjaldið, hvort heldur það væri alt aukaútsvar, eða að það væri 90 kr. af því aukaútsvar og 10 kr. fátækratíund.