08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

11. mál, eignarnámsheimild vegna mannvirkja undir hafnarbryggju

Flutningsm. (Stefán Stefánsson) :

Eins og hinir háttv. þingdeildarmenn munu minnast, hafa samskonar frv. og þetta áður komið fram, bæði á síðasta þingi og sömul. á alþingi 1911, og í hvorugt skifti mætt nokkurri mótspyrnu. Vænti eg því hins sama, að því er þetta frv. snertir. Svo sem frv. ber með sér hefir hreppsnefnd Hvanneyrarhreppa farið fram á að fá þessa heimild, enda er það nauðsynjamál fyrir kauptúnið, eins og nú hagar til, þar sem jafn geysimikil aðsókn er af aðkomandi síldveiðamönnum, og reynslan þar af leiðandi sú, að árl. vantar geymslurúm í landi fyrir vörur, og sömuleiðis söltunarpláss. Það er þess vegna fyrirsjáanleg stór tekjugrein fyrir sveitar sjóð Hvanneyrarhrepps, verði slík heimild gefin, og að hafnarbryggja og byggingar í sambandi við hana, verði bygð sem allra fyrst, áður en útlendir aðkomumenn hafa fengið eða tekið á leigu mestan hluta af Siglufjarðareyri, og þá að líkindum þar, sem öll afstaða er hvað haganlegust.

Nefndarkosningu álít eg ekki nauðsynlega, en hefi hins vegar ekkert á móti því, ef það álízt réttara: