08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

12. mál, lögreglusamþykkt fyrir Hvanneyrarhrepp

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Eg þarf ekki að vera langorður um þetta frv. Það er líkt á komið með það og frv. næst á undan, fyrst og fremst að því leyti, að það er flutt eftir ósk Hvanneyrarhreppsbúa, og í annan stað þá leiðir það eðlilega af aukinni íbúatölu, og þar af leiðandi árl. húsabyggingum að þessarar heimildar er leitað. Fyrir síðasta þingi lá samsk. heimildarfrumv. og var þá samþ. Eftir að eg skrifaði frv. tók eg eftir því, að samkv. lögum frá 1905 lít eg svo á, sem kauptún, þótt þau sé ekki sérstakur hluti úr hreppi, hafi heimild til að gera byggingarsamþykt, og er það þess vegna dálítið kynlegt, að á síðasta þingi skyldi vera samþ. á ný heimild að þessu leyti, en einmitt þetta atriði þarf að athuga nánara, og skal eg því leyfa mér að stinga upp á, að frv. sé vísað til sömu nefndar og sett var til að athuga frv. um eignarnámsheimild Hvanneyrarhrepps.