11.08.1914
Neðri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

120. mál, stjórnarskrá

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson):

Eins og eg lýsti yfir fyrir hönd nefndarinnar við 1. umr., þá hefir hún lagt til, að frumvarpið verði samþykt óbreytt. Eg má þó bæta því við, að minsta kosti af hálfu meiri hl. nefndarinnar, að skilyrðið fyrir því, að nefndin leggar til, að frv. verði samþ., er sá, að fyrirvari fylgi um uppburð sérmálanna fyrir konungi. Með því að nefndin hefir lagt þetta til, sé eg ekki ástæðu til þess að fjölyrða um einstök atriði frumvarpsins né um sjálfan fyrirvarann fyrr en í sambandi við hann (þskj. 438) og þær breytingartilögur, sem að honum lúta (þskj. 447 og 455).

En það er eitt atriði í 1. gr. frv., sem eg vil drepa á, þótt það sé að vísu formatriði.

Eins og kunnugt er, er þar ákveðið, að tölu ráðherra megi breyta með lögum. Það hefir áður verið bent á það; utanþings þó, að grein þessi væri óheppilega orðuð. Því að hún og alt annað í frv. bygðist einmitt á því, að ráðherra væri ekki nema einn. Svo sem að ráðherra megi ekki hafa annað embætti á hendi og að landssjóður greiði kostnað við utanfarir ráðherra o. s. frv . Eg tel þetta orðalag að vísu ekki sem höndulegast, en þó ekki til fyrirstöðu því, að fullnægja megi heimildinni í 1. gr. um fjölgun ráðherra. Úr því að löggjafinn sjálfur ætlast til þess, að þessu (þ. e. tölu ráðherra) verði breytt, þá breytist auðvitað alt það. sem breytingin hefir nauðsynlega í för með sér. Það skilyrði, að ráðherra megi ekki hafa annað embætti verður þá ekki skilið svo, að honum sé óheimilt að fara með embætti annars ráðherra til bráðabirgða. Og þar sem það er ákveðið, að landritari taki við ráðherraembættinu, ef ráðherra deyr, þá hverfur þetta ákvæði úr sögunni jafnskjótt sem ráðherrum verður fjölgað, enda skal þá leggja niður landritaraembættið, en þegar ráðherrar eru orðnir tveir eða fleiri, þá tekur einhver þeirra við störfum þess, er deyr.

Það eru ýms fleiri ákvæði, sem byggjast á því skipulagi, sem nú er, að ráðherra sé einn, en ekkert er þó sem hindrar, að þessu ákvæði l. gr. verði framfylgt. Þetta er aðeins skýring um skilning þessa atriðis, sem eg vildi láta fram koma, svo að síðar mætti til þess vitna, ef vafi léki á um það, hvernig beita skyldi heimild 1. gr. frv. til fjölgunar ráðherrum.