11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

14. mál, vörutollur

Bjarni Jónsson:

Háttv. þm. S.- Múl. (G. E ) misskildi gersamlega það, sem eg sagði áðan, og á þeim misskilningi reisti hann þær getsakir sinar, að eg væri svo vankunnandi í sjómensku, að eg þekti ekki muninn á skektu og mótorbát. Hann undraðist, hvernig vér færum að ímynda oss að vörutollurinn á bátunum gæti verkað í þá átt að gera bátasmíðina innlenda, þar sem 700 kr. flutningagjald hefði ekki getað orðið til þess hingað til. Út af þessum orðum hans spurði eg, hvort það kostaði svo mikið að flytja færeyska báta og norskar skektur til landsins. Eg spurði svo af því, að orð hana gáfu beinlínis tilefni til þess, en ekki af því eg vissi ekki betur. Eg veit, að flutningsgjaldið af smábátum er margfalt minna en 700 kr., og þess vegna er það, að eg held, að á smábátunum muni talavert um vörutollinn í hlutfalli við flutningsgjaldið. Annars get eg sagt háttv. þm. (G. E.) það, ef hann man það ekki sjálfur, að þegar hann var svo lítill hnokki, að hann kunni ekki að gera greinarmun á sjó og landi, hvað þá á skektu og mótorbát, þá kunni eg bæði að fara með báta og segl og margt annað það, er að sjómensku lýtur. Og enn hefi eg ekki gleymt þeim fræðum svo, að eg þurfi að ganga í skóla til háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) til þess að nema þau á ný. Eg er engu síður gamall og góður Breiðfirðingur en háttv. þm. (G. E.).

En þetta eru nú orðahnippingar, sem ekki koma málefninu við.

Það er orðið ljóst af ræðu háttv. þm. V.-Ís. (M. Ól.) að bátarnir, sem hér á landi eru smíðaðir, eru bæði traustari og stærri, og þar af leiðandi ekki eina hættulegir lífi manna og erlendu bátarnir. Og það er enn ósannað, að vörutollurinn geti ekki stutt að því að gera bátasmíðina innlenda. Reynslan hefir ekki ennþá leitt neitt í ljós um það, sem ekki er heldur hægt að búast við, því að það er ekki liðið ár síðan að þessi tollur komst í lög. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) sér þetta sjálfur, því að hann reynir ekki að hrekja það, og sér hann fótum sínum forráð þar, þó að hann hafi gengið helzt til langt með þessari tillögu sinni. Hann vitnar til vor og biður að hlífa sjómönnunum við þessu gjaldi. Þá vil eg heldur ljá því eyra, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) gat um með réttu, að ef það tækist að gera bátasmíðina innlenda, þá væri ekki eingöngu sparað fé með því heldur mörg mannslíf, því að bátarnir sem hér eru gerðir eru bæði traustari, stærri og endingarbetri heldur en erlendu lekahripin, sem liðast sundur eftir 3–5 ár.