16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

41. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Þetta frv. fer fram á tvær lítilfjörlegar breytingar á lögunum frá síðasta þingi um sjódóma og réttarfar í sjómálum. Frá mínu sjónarmiði eru báðar þessar breytingar jafn nauðsynlegar. Fyrri breytingin er nauðsynleg til þess að fá þá sérþekkingu í sjódóminum, sem gert er ráð fyrir í sjálfum lögunum að eigi að vera þar.

Í 2. gr. laganna er skýrt tekið fram, hvaða kostum þeir menn eigi að vera búnir, sem skipa má í dóminn. Þeir þurfa að hafa sérþekkingu á útgerð, vélastörfum, vörum eða vátryggingarmálefnum. Nú hefir reyndin orðið sú, að jafnvel hér í Reykjavík, sem er fjölmennasta sjódómsþinghá í landinu, hefir ekki verið hægt að fá þá menn í sjódóminn, sem sérþekking hafa á öllum þessum atriðum eða einhverjum þeirra, og sem ennfremur eru siglingafróðir. —

Önnur breytingin, sem farið er fram á, er einnig sjálfsögð, svo að menn verði ekki sviftir þeim rétti, sem þeir ella hafa, að þurfa ekki að borga sérstaklega fyrir dómstólaaðstoð í málum sínum.