16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

41. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Eg heyrði ekki nákvæmlega fyrri partinn af ræðu háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.), en eg skildi þó, að hann mælti á móti fyrri breytingunni, sem frv. fer fram á, en eg tel svo sjálfsagða. Eg skil ekki, að það geti talist heppilegt að einskorða það með lögunum, að einungis siglingafróðir menn geti átt setu í sjódómnum. Og eg efast ekki um, að ef háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) vildi kynna sér lögin og hugsa sig vel um, þá myndi hann sannfærast um, að fjöldamörg mál falla undir sjódóminn, sem ekki eiga meira skylt við siglingar heldur en hverjir aðrir tveir fjarskyldir hlutir. Þeir siglingafróðu menn, sem hér er völ á, eru tæplega aðrir en skipstjórar á fiskiskipum, og eru þeir, eins og við er að búast, hvorki vátryggingafróðir, vélfróðir, né hafa þekkingu á meðferð á vörum í skipum, hvernig skemdir verða á þeim, hver ábyrgð fylgir hleðslu vöruskipa o. s. frv. Það er auðvitað sjálfsagt, að í flokki þeirra manna, sem sjódóm sitja, sé einhverjir, sem vit hafa á siglingamálum, en ef þá kröfu á að gera til þeirra allra, þá verður ekki unt að fá þá sérþekkingu á öðrum málum inn í dóminn, sem lögin heimta. Sem sagt, þá vona eg að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) Sannfærist um, hver nauðsyn ber til þessarar breytingar, þegar hann hefir hugsað sig um, og einkum ef hann athugar, hvaða mál það eru, sem falla undir sjódóminn. Það er ekki og hefir aldrei verið meining mín, að siglingafróðir menn eigi ekki að vera í dómnum, það tel eg sjálfsagðan hlut. Hitt er tilgangurinn með frv. að koma því til leiðar, að sérfræði í öðrum greinum komist einnig að.