16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

41. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Einar Arnórsson :

Án þess að vilja blanda mér í deilu þessara tveggja háttv. þm. (Sv. B. og M. Ó.), þá vil eg þó taka það fram, að eg er hræddur um, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hafi ekki allskostar rétt mál að verja. Breytingin, sem frv. á þskj. 60 fer fram á, miðar ekki til þess að útiloka menn með sérþekkingu frá því að verða nefndir í dóminn. Mér skilst, þegar það er athugað, hvaða mál það eru, sem heyra undir sjódóminn, að það sé ekki heppilegt að mega ekki tilnefna aðra menn í hann en þá eina, sem sérþekkingu hafa í siglingamálum. Undir þenna dóm heyra ýms mál, sem menn með aðra sérþekkingu þarf til að dæma um, en hægt er að ætlast til, að vélamenn og skipstjórar hafi. Mér finst þess vegna ekki rétt, að rígskorða það við siglingamálaþekkinguna að öllu leyti, hverja menn nefna má í dóminn.

En úr því að ágreiningur hefir risið upp um þetta mál sá sýnist ekki úr vegi, að nefnd verði skipuð til þess að íhuga það. Umræðurnar hafa bent greinilega í þá átt, að ekki hafi allir háttv. þm. hugsað málið sem skyldi. Eg vil þess vegna leyfa mér að stinga upp á, að málið verði fengið þriggja manna nefnd til frekari athugunar.