16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

41. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Ráðherra (H. H.):

Það, sem eg vildi láta í ljós um þetta mál, var svipað því, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir nú tekið fram. Eg er samdóma honum og háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) um, að óhætt sé að sleppa þessu ákv. úr 1. gr. sjódómslaganna. Eg er aftur á móti ekki viss um, að breytingin á 5. gr. laganna sé heppilega orðuð í frv. Eg er raunar samþykkur því, að rétt sé að kostnaðurinn við starf sjódómendanna greiðist úr landasjóði. En eins og breytingin er orðuð, getur hún haft víðtækari afleiðingar.

Eg held, að það væri skaðlaust, að fella burtu 3. gr. frv. Það eru svo litlar breytingar, sem farið er fram á að gerðar sé á lögunum, að það svarar varla kostnaði að fara að prenta öll lögin upp vegna þeirra, og gefa þau út sem nýjan lagabálk. Það hefði töluverðan kostnað og fyrirhöfn í för með sér, því að aðgætandi er, það þarf ekki einungis að prenta lögin á íslenzku, heldur og á dönsku.

Af þessum ástæðum er eg samþykkur tillögu háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) um nefndarkosningu.