11.08.1914
Neðri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

120. mál, stjórnarskrá

Hannes Hafstein:

Mér hefir skilist svo, að ástæða háttv. þingnefnda fyrir því, að samþykkja einhvern »fyrirvara« um leið og stjórnarskrármálið er afgreitt, sé alls ekki óánægja út af þeirri ráðstöfun, að íslenzk lög skuli, eftirleiðis eins og hingað til, borin upp fyrir konunginum í ríkisráði hans, heldur sé tilgangurinn aðeins sá, að mótmæla því, að með stjórnarskrárbreytingunni, 1. gr. frumvarpsins, sé uppburður málanna gerður að sameiginlegu máli. Það hefir verið látið svo, sem einhver hætta í þessa átt gæti stafað af því, að spurningin um breyting á fyrirkomulagi þessa atriðis er sett í samband við ný lög um ríkisréttarsambandið milli Íslands og Danmerkur í auglýsing þeirri um skilyrðin af konungs hálfu fyrir staðfesting stjórnarskrárfrumvarpsins, sem felst í hinu konunglega opna bréfi um nýjar kosningar til alþingis frá 20. okt. f. á., og skilst mér, að fyrirvarinn eigi að fyrirbyggja það, að nokkur geti litið svo á að alþingi samþykki að leggja þetta sérmál Íslands á vald Ríkisþingsins danska, þótt það samþykki nú stjórnarskrána eftir framkomnar yfirlýsingar af konunga hálfu; en sú hugsun er af því sprottin, að ný sambandslög geta ekki orðið til án samþykkis Ríkisþingsins. Eitthvað í þessa átt hygg eg vaki fyrir flestum þeim, sem vilja koma fram með skýra yfirlýsingu um það, að hér sé um ekkert réttarafsal að ræða af Íslands hálfu, heldur haldi alþingi fast við þá skoðun sína, að uppburður íslenzkra mála fyrir konungi sé íslenzkt sérmál, þótt því atriði sé í framkvæmd ráðstafað eins og gert hefir verið. Aftur á móti hygg eg ekki, að það sé tilætlan þingmanna, nema þá ef til vill örfárra að reyna að fá konung til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni, að málin skuli borin upp fyrir honum í ríkisráði hans, enda fer því fjarri, að eg sé sá eini, sem tel það meira en vafasamt, að Ísland græddi nokkuð á að breyta því. Eg er í engum vafa um það, að yrði vikið frá því fyrirkomulagi, þá mundu verða teknar upp einhverjar aðrar leiðir, sem Íslandi yrði engu betri, affarasælli né sjálfstæðisríkari. Enginn þarf að láta sér detta það í hug, að íslenzk lög yrði þá staðfest svo, að enginn annar en konungurinn og Íslandsráðherra einn hefði vitneskju um hvað fram færi, alla þá stund, sem ríkisréttarsamband landanna er eins og það nú er.

Eg fyrir mitt leyti tel »fyrirvarann« hvernig sem hann nú verður, óþarfan, því að það liggur í hlutarins eðli, að svo framarlega, sem það er rétt, sem vér fullyrðum, að uppburður mála vorra fyrir konungi sé, eigi síður eftir stjórnarskrárbreytinguna en áður, stjórnskipulegt sérmál vort, þá verður því ekki breytt nema á stjórnskipulegan hátt ; en sé það ekki rétt, þá dugir enginn »fyrirvari» til að kippa því í lag.

Mér virðist þessi uggur út af því, sem gerðist í ríkisráðinu 20. okt. f. á. vera sprottinn af því, að menn rugli saman tveim ólíkum eða hliðstæðum ráðstöfunum, er þar vöru gerðar. Önnur þeirra er íslenzk stjórnarráðastöfun, gerð af konungi á ábyrgð Íslandaráðherra eins. Það er fyrirskipunin um nýjar kosningar til alþingis með þeim boðskap til kjósenda, að konungur muni, um leið og hann staðfesti stjórnarskrárbreytinguna, gefa út þann úrskurð samkvæmt 1. grein hennar, með undirskrift Íslandsráðherra, að málin skuli eftir sem áður borin upp fyrir honum í ríkisráði hana. Hitt var dönsk stjórnarathöfn, er konungur boðar það, að hann muni á sínum tíma gefa út auglýsingu til Dana með undirekrift forsætisráðherra Danmerkur um það, að þessi ráðstöfun hafi verið gerð, og að hann muni ekki breyta henni nema breytt hafi verið áður sambandinu milli landanna. Þetta er ekki gert eftir tillögum Íslandsráðherra. En hinsvegar ómögulegt fyrir Íslandsráðherra að fyrirbyggja slíka yfirlýsingu af konungs hálfu, þótt hann hefði viljað. Það stendur ekki í voru valdi að hindra það, að konungur og forsætisráðherra Dana gefi út hverja þá auglýsingu, sem þeim sýnist um gerðir og fyrirætlanir konungs. En hitt er eins víst, að slík auglýsing, sem sú, er hér var boðuð, getur ekki breytt stjórnskipulegum rétti Íslands, enda hefir ekki neinn slíkan tilgang, heldur eðlilega gerð til þess að friða danska stjórnmálamenn, sem hafa haldið því til streitu, að ríkisráðið teljist til sameiginlegu málanna, og að það sé »stjórnarfarsleg nauðsyn«, vegna þess, hvernig sambandi landanna er varið og ábyrgðarinnar gagnvart öðrum ríkjum, að danska stjórnin viti, hverju fram vindur í löggjöf vorri. — Eg kæri mig ekki um að vera neitt að verja mínar aðgerðir í því að fá framgengt stjórnarakrárbreytingunni, eða framkomu mína á ríkisráðsfundinum 20. október. Það má hver meta það eins og honum þóknast. Að eina vil eg leiðrétta þann misskilning hjá háttvirtum þingmanni N.-Þing. (B. Sv.), að það hafi verið einhver pólitískur ósigur fyrir mig, að eg tók aftur fyrstu tillögu mína til orðunar á opna, bréfinu um kosningar til alþingis, eins og frá er skýrt í skýrslunni um ríkisráðsfundinn, er birt er í Lögbirtingablaðinu. Sannleikurinn er þessi: Eg hafði sent konungi til undirskriftar hreinskrift að opnu bréfi um kosningar til alþingis, sem búin var til hér heima í stjórnarráðinu áður en eg sigldi, í venjulegu formi, að eins örfáar línur um, að nýjar kosningar skuli fram fara, og ekkert annnað. Þegar það skjal var ritað vissum við ekkert um, hvort konungur mundi fást til að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna, né með hverjum skilyrðum, svo að um það gat auðvitað ekkert staðið þar. Þetta skjal lá hjá konungi, og hafði verið honum sent löngu áður en eg fekk að vita, hvernig hann mundi svara spurningu minni í ríkisráðinu um það, hvort hann gæti fallist á stjórnarskrárfrumvarpið með breytingum alþingis, eða hvort hann mundi synja því staðfestingar, eins og áður hafði verið yfirlýst að hann mundi gera, ef ríkisráðsákvæðið gamla væri úr felt. En um þetta vildi eg láta kjósendur vita fyrirfram, og standa eða falla með frumvarpi þingsins.

Þegar það svo kom á daginn, að konungur mundi staðfesta frumvarpið, en setja það skilyrði, sem menn raunar höfðu við búist, að jafnframt væri útgefinn íslenzkur konungsúrskurður um, að málin skyldi borin upp í ríkisráðinu, og auk þess lýsa yfir fyrirætlun sinni um dönsku auglýsinguna, áleit eg sjálfsagt að gera íslenzkum kjósendum þetta alt kunnugt svo fljótt sem unt væri, enda var það og vilji konungs. En þá átti eg um það að velja, hvort þetta skyldi gert í sérstökum konungaboðskap, eða tekið upp í opna bréfið um nýjar kosningar. Eg ákvarðaði mig til þess

að taka það heldur upp í opna bréfið, meðal annars af því, að svo nefndur konungs boðskapur hefir hingað til að eins verið stílaður til alþingis, en þetta var boðskapur til almennings. Af þessari ákvörðun minni leiddi það og hlaut að leiða, að eg bað konunginn fá mér aftur skjalið, sem ritað hafði verið hér heima, og fekk honum í þess stað nýja, aukna útgáfu af bréfinu, þar sem þessum nýju atriðum var viðbætt. Á þennan hátt varð opna bréfið til í því formi, sem það er, sumpart fyrirskipan, sumpart tilkynning um yfirlýsta fyrirætlan konungs, er kjósendur varðaði að vita um til fulls, áður þeir gengi til kosninga um frumvarp þingsins 1913.

Þetta er »ósigurinn«, sem eg á að hafa beðið. Þetta er það, sem háttv. þm. kallar að eg hafi »tekið aftur tillögur« mínar o. s. frv. En eg veit, að eg hefi ekkert aftur tekið, og álít, að eg hafi engan ósigur beðið í þessu, heldur fullnægt, eftir því sem ýtrast var unt, vilja þeirra manna meðal þings og þjóðar, sem óskuðu að stjórnarskrárbreytingunni fengist framgengt.