13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Magnús Kristjánsson :

Eg skal byrja á að geta þess, að prentvilla hefir slæðst inn í breyt.till., 1913 í staðinn fyrir 1903. Það hefir reyndar ekki neina verulega þýðingu, en eg minnist aðeins á það, til þess að það verði leiðrétt.

Breyt.till. mín þarf ekki neinna verulegra skýringa við. Eg hefi komið fram með hana af þeirri ástæðu, að mér þykir frumv. ganga helzt til langt. Það er að vísu satt, að sá orðrómur hefir leikið á, að ráðherraeftirlaunin muni, að einhverju leyti, hafa verið orsök til ýmislegs þess, sem miður hefir farið í stjórnarfari voru nú undanfarið, eða með öðrum orðum, að þau hafi að nokkru leyti verið undirrót æsinga þeirra, sem leitt hafi til stjórnarskifta og mikið vafamál er um, að haft hafi heppilegar afleiðingar.

Sé gengið út frá því, að slíkur orðrómur sé á verulegum rökum bygður, þá get eg ekki neitað að stefna frumvarpsins sé réttmæt en það mætti fara einhvern milliveg í þessu máli. Þótt eftirlaunin yrði ekki afnumin með öllu, gæti þó verið heppilegt að takmarka þau að einhverju leyti. Þessvegna hefi eg leyft mér að koma fram með brt. á þskj. 82, sem gengur í þá átt, að ráðherrar njóti eftirlauna fyrstu þrjú árin eftir að þeir fara frá völdum. Eg þykist ekki þurfa að mæla mikið með þessari tillögu minni, því að við nánari íhugun hygg eg, að menn verði að játa, að hún sé á nokkrum rökum bygð. Mér skilst, að það eitt sé ekki nægilegt, að maður sé fáanlegur til að taka þessa stöðu að sér. Það er ekki nákvæmlega sama, hver maðurinn er, og það er skylda þingsins fyrst og fremst, að vanda sem allra bezt valið á slíkum manni. Þetta hygg eg, að öllum komi saman um. En þá er hitt líka sjálfsagt, að það tjáir ekki að bjóða þessum manni nein smánarkjör. Eg álít valið svo mikils virði, að ekki beri að horfa í það þótt það hafi dálítið aukinn kostnað í för með sér, að fá sem nýtastan mann í ráðherrastöðuna. Það vita allir, að þeim mönnum, sem eru virkilega mikilhæfi, samvizkusamir og duglegir, bjóðast svo mörg tækifæri til að komast í vel launaðar stöður, að þeir myndi trauðla kæra sig um ráðherraembættið, ef eftirlaunarétturinn yrði með öllu afnuminn, nema til kæmi sérstök valdafíkn eða metorðagirnd eftir svo tiginni stöðu.

Eg verð að segja, að mér er þriggja ára tímabilið ekki beinlínis neitt kappsmál, og myndi eg vel geta gengið inn á breyt.till., sem gerði ráð fyrir fimm ára eftirlaunum.