27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson):

Svo illa hefir til tekist, að nefndin hefir klofnað. Meiri hluti hennar hallast að breytingu þeirri, sem háttv. þm. Ak. (M. Kr.) vildi gera láta á frv., þó með þeirri miðlun, að í stað þriggja ára eftirlauna, sem ráðherra var ætlað samkvæmt tillögu hans, hefir meiri hluti nefndarinnar sett tveggja ára eftirlaun. Meiri hluta nefndarinnar þótti varhugavert að svifta ráðherra alveg eftirlaunarétti, meðan allir aðrir embættismenn með konungsveitingu hafa þenna rétt. En breytingin er sú, frá því sem nú er, að eftirlaun ráðherra eru reiknuð að eina eftir almennum eftirlaunalögum. 3 þúsund kr. takmarkið, sem sett er í lög nr. 17, 3. okt. 1903, gildir ekki lengur, ef frv. verður samþ. með br.till. vorri. Vitanlega er hér gert ráð fyrir því, að frv. til nýju stjórnarskipunarlaganna verði að lögum, og þarf varla að taka það fram.

Meiri hl. hefir komið fram með tvær aðrar br.till. við frv., og eru þær í fullkomnu samræmi við aðgerðir þingsins 1911, sem sé, að ef maður sleppir embætti, sem eftirlaunaréttur fylgir, þá sé sá réttur honum til handa ekki skertur með þessum lögum. En til þess að skjóta loku fyrir það, að ráðherra; sem látið hefir af embættinu, taki eftirlaunin að þarflausu, þá vill meiri hl. að honum sé gert að skyldu að taka við embætti eða sýslan í almennings þarfir, sem við hans hæfi verði metin, ella afsali hann sér eftirlaunum eftir lögum þessum.

Ágreiningurinn á milli meiri- og minnihluta er meira í orði en á borði. Og er mér ekkert kappsmál, hvort ofan á verður, tillögur meiri- eða minni hl. í þessu máli. Eg býst nú við, að háttv. minni hl. geri grein fyrir sínu áliti, en á meðan sú greinargerð er ekki fram komin, sé eg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að þessu sinni.