27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Bjarni Jónsson:

Eg vil láta þá skoðun mína í ljós, að minni hl. hefir hér réttara fyrir sér en meiri hl., eins og oft vill verða. Eg sé enga ástæðu til að veita ráðherranum tvö náðarár, úr því að hann á að vera eftirlaunalaus á annað borð. Annaðhvort á hann að hafa eftirlaun eða ekki. Tveggja ára eftirlaun eru hundsbætur fyrir þann mann, sem á fé þarf að halda, en til athlægis fyrir hinn, sem ekki þarf þess. Mér skilst, að ráðherrastaðan sé eftir eðli sínu lík sýslunarmannastöðum, sem margar eru í landinu og eru eftirlaunalausar með öllu, jafnvel þó að þær stöður sé almenningi til jafnmikilla nytja og þær sem embættisnafn hafa. Eg get nefnt til dæmis ráðunauta Búnaðarfélagsins, því að þótt þeir sé ekki skipaðir af stjórnarráðinu, þá eru þeir í rauninni skipaðir af einni skrifstofu þess, sem Búnaðarfélagið er í réttu lagi. Sýslunarmenn eru margir aðrir í landinu, en mér dettur þetta í hug, einungis af því, að eg sé hér einn háttv. þm. fyrir mér, sem þá stöðu hefir. Ráðherrann er í rauninni sýslunarmaður. Hann getur farið frá eftir 2 ár, 1 ár, 1/2 ár eða jafnvel styttri tíma, ef svo ber undir. Er því þegar af þeim ástæðum síður viðeigandi að veita honum eftirlaun. Og þegar ráðherrann fer frá, getur það verið mjög mismunandi, af hvaða ástæðum það er. Sumir hafa rekið erindi þjóðarinnar og þingsins svo slælega, að þeir eru taldir óhæfir til að gegna embættinu lengur. Þeir eiga sannarlega ekki akilið að fá eftirlaun fyrir það. Aðrir eru þeir, sem svo fast hafa rekið erindi þjóðar og þinga, að þeir hafa orðið að þoka fyrir konungsvaldinu. Um þá menn er ekki hægt að segja, að þeir hafi brotið af sér svo að þeir geti ekki haft embættið á hendi fyrir því. En reynslan hefir sýnt, að það er sjaldgæfara en hitt. Það bendir í þá átt, að bezt sé að taka hreint af skarið og láta ráðherrann vera lausan við öll eftirlaun. Ef illa stendur á fyrir fráfarandi ráðherra og hann er alls góðs maklegur, þá er innan handar fyrir þingið að veita honum einhverja þóknun með sérstökum lögum. Allir játa, að ef embættismaður, hvort sem hann er nú sýslumaður, landritari eða eitthvað annað, tekur við ráðherrastöðu, þá er engin ástæða til annars, en að hann taki við embættinu aftur jafnskjótt og hann fer frá, enda hefir það borið við. Ef einhver atvinnurekandi, t. d. verzlunarmaður yrði að selja arðsama verzlun til þess að verða ráðherra, þá má segja, að hart væri að láta hann vera skaðabótalausan, eins og háttv. framsögum. meiri hlutans (E. A.) tók fram. En þegar um það er að tefla, þá getur þingið athugað, hvað hann hefir lagt í sölurnar og ákveðið honum skaðabætur eftir því. Þetta hlýtur að koma réttlátlegar niður en þó að ráðherrann hefði lögákveðin smáeftirlaun, allra helzt ef þau verða bundin við ein tvö ár. — Ef ráðherrunum verður fjölgað, sem liggur við borð og margir telja viturlegra til þess að einn maður sé ekki alveg einvaldur á milli þinga, þá geta eftirlaunin orðið allmikil fúlga, ef ráðherrarnir fara allir frá í einu, og ráðherraskiftin verða jafntíð og verið hefir hingað til. Gæti þá komið til þess, að Íslendingar óttuðust svo mjög eftirlaunabyrðina, að þeir heyktist í hverju máli, sem konungsvaldið sýndi einhvern mótþróa. Þetta er hættan, sem af ráðherraeftirlaununum getur stafað.

Hér er mér sent skeyti, sem myndi undir flestum kringumstæðum aftra mér frá að halda fram þessari skoðun, því að það er annar maður hérna, sem er á sömu skoðun og mætti af því ráða að hún væri ekki rétt. Eg held, að eg hætti nú samt í þetta sinn. Afstaða mín í þessu máli er skýr og eg vil að ráðherra hafi engin eftirlaun. Eg tel það sjálfsagt, að þingið sjái um að ráðherra lendi ekki í örbyrgð þegar hann leggur niður embætti. Um það þarf ekki að setja nein lög, því að það er nóg að óskrifuð lög sé til í þessu efni.