27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson) :

Eg get byrjað þar sem háttv. 1. þm, S.-Múl. (Þ. B.) endaði. Það er enginn ágreiningur milli okkar um það, að eftirlaunamálið alt ætti að taka til rækilegrar athugunar. Og ekki greinir okkur heldur á um hitt, að það beri að taka tillit til þjóðarviljans í þessu efni. En eg verð að segja það aftur, að meðan eftirlaun eru ekki afnumin alment, þá er hart að taka þennan eina æðsta embættismann landsins algerlega út úr.

Þá vil eg svara háttv. þm. Dal. (B. J.) örfáum orðum. Hann segir, að það sé ýmsar stöður í almennings þarfir óeftirlaunaðar. Þetta er að vísu rétt, en samkvæmt eftirlaunalögunum fylgir eftirlaunaréttur hverju því embætti, er konungur veitir, og eitt þeirra er ráðherraembættið. Það er rétt, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að ráðherra verður að láta af embætti af ýmsum ástæðum, er eigi koma til greina um önnur embætti, sumpart af því, að hann bregzt föðurlandinu og sumpart af því, að hann heldur of harðlega fram rétti þess. En í framkvæmdinni mun verða erfitt að gera út um hvatir ráðherrans, og gæti jafnvel orkað tvímælis, hvort það brot, sem hann yrði sakaður um, kæmi í bág við heill föðurlandsins, því að það getur í reyndinni verið, að þingið gefi ráðherra vantraustsyfirlýsingu fyrir rangar sakir eins og réttar. Háttv. þm. Dal. (B. J.) tók það ennfr. fram, að ef svo yrði ástatt um mann, sem tæki við ráðherraembætti, að hann hefði ekki eftirlaunarétt, þá gæti þingið veitt honum eftirlaun. Má eg spyrja háttv. þm., heldur hann að það kæmi réttlátlega niður, ef sama þingið, sem gefur ráðherra vantraustayfirlýsingu, ákveður hvort hann skuli hafa eftirlaun, og hve há, eða ekki ? Eg býst við að það færi svo, að það gæti orðið hreinasta vitleysa í sumum tilfellum, enda þótt þingið ákvæði eftirlaunin. Eg vil hafa fasta reglu um það. En háttv. þm. Dal. (B. J.) fór lengra. Hann vildi láta þingið gefa fráfarandi ráðherra skaðabætur, ef hann hefði verið atvinnurekandi áður en hann tók við embættinu. Ef sú skoðun háttv. þm. kæmist í framkvæmd, er eg hræddur um, að vér værum komnir inn á hála braut. En hitt get eg ímyndað mér, að atvinnurekandi menn myndu ekki vilja gefa kost á sér til ráðherraembættisins, ef það væri eftirlaunalaust. Eg skal játa það, að persónulega er mér þetta ekkert kappsmál, og vil eg ekki fara í neinar kappræður um það, eins og átti sér stað um annað mál hér á laugardaginn.